Erlent

Gera allt til að koma í veg fyrir mænusóttarfaraldur í Nígeríu

Atli Ísleifsson skrifar
Sjálfboðaliðinn Aisha Bulam sem býr í Borno merkir hér fingur lítillar stúlku sem hún er búin að bólusetja.
Sjálfboðaliðinn Aisha Bulam sem býr í Borno merkir hér fingur lítillar stúlku sem hún er búin að bólusetja. Mynd/UNICEF á íslandi
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, stendur nú fyrir umfangsmiklu bólusetningarátaki gegn mænusótt í Nígeríu eftir að þrjú tilvik af veikinni greindust í norðausturhluta landsins. Þar búa mörg hundruð þúsund börn sem eru nú í lífshættu vegna vannæringar.

Í frétt á vef UNICEF á Íslandi segir að yfir 40 milljón barna verði bólusett til að hindra að mænusóttarfaraldur brjótist út. Ekkert tilfelli hafði komið upp í Afríku í tvö ár þegar þetta gerðist en unnið er að því að útrýma þessum skæða sjúkdómi á heimsvísu.

UNICEF á Íslandi hefur staðið fyrir neyðarsöfnun vegna ástandsins og hafa nú þegar tólf milljónir króna safnast.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir mörg þúsund manns hafa stutt söfnunina og það sé félaginu mjög mikilvægt að finna fyrir þessum mikla stuðningi. „Þetta er ómetanlegt, enda er neyðin á svæðinu gríðarleg og þörf á að stórauka aðgerðir UNICEF. Í húfi eru raunveruleg líf, raunveruleg börn og raunverulegur möguleiki á að koma í veg fyrir að þau láti lífið,“ segir Bergsteinn.

Sérstakir styrktartónleikar verða haldnir á Húrra á föstudaginn þar sem FM Belfast og Hermigervill koma fram.


Tengdar fréttir

Reynt að bjarga tugum þúsunda barnslífa

Meira en níu milljónir hafa safnast í neyðarsöfnun UNICEF vegna vannæringar í Nígeríu og nágrannalöndunum Níger, Tsjad og Kamerún. UNICEF segir frábært að finna stuðninginn frá Íslandi Hann skipti miklu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×