KSÍ hefur þegið boð um að taka þátt á fjögurra þjóða móti í Kína í janúar á næsta ári. Auk Íslands og Kína munu Síle og Króatía taka þátt í mótinu.
Mótið fer fram á Guangxi leikvangnum í Nanning. Það er skipulagt utan við alþjóðlega landsleikjadaga svo búast má við því að íslenska liðið verði að mestu skipað leikmönnum sem spila á Norðurlöndunum.
Mótið verður leikið með útsláttarfyrirkomulagi þannig að hvert lið leikur tvo leiki. Fyrri undanúrslitaleikurinn verður þann 10. janúar og sá síðari daginn eftir. Sigurvegararnir úr undanúrslitaleikjunum leika svo til úrslita á mótinu þann 15. janúar en leikur um 3. sætið fer fram þann 14. janúar. Það liggur ekki enn fyrir hvaða liði Ísland mætir í undanúrslitunum.
Karlalandsliðið fetar þar með í fótspor kvennalandsliðsins sem tók þátt á Sincere-mótinu í Chongqing í Kína í síðasta mánuði.
Ísland mætti Króatíu fyrr í þessum mánuði og tapaði með tveimur mörkum gegn engu í undankeppni HM 2018. Íslenska landsliðið hefur tvisvar mætt Síle (1995 og 2001) en aldrei leikið við Kína.
Strákarnir fara til Kína líkt og stelpurnar

Tengdar fréttir

Umfjöllun: Króatía - Ísland 2-0 | Glötuð tækifæri í Zagreb
Ágæt spilamennska á köflum í Zagreb var ekki nóg. Mannekla í sóknarlínu íslenska liðsins var strákunum okkar að falli. Ísland tapaði í dag sínum fyrsta leik í undankeppni HM 2018.