Erlent

Suður-afrískur predikari spreyjar söfnuð sinn með skordýraeitri

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Slíkum tilfellum fer fjölgandi í Suður-Afríku.
Slíkum tilfellum fer fjölgandi í Suður-Afríku. Facebooksíða MZGA
Predikari nokkur sem býr í Suður-Afríku hefur víða verið gagnrýndur fyrir að spreyja söfnuð sinn ítrekað í andlitið með skordýraeitri. Þetta kemur fram í frétt BBC. Predikari þessi er raunar sjálfskipaður spámaður og ber nafnið Lethebo Rabalago en hann telur að með þessum gjörningi sé hann að lækna fólk.

Framleiðendur skordýraeitursins sem ber nafnið Doom vilja hins vegar ekki kannast við heilunareiginleika eitursins og segja að snerting þess við húð mannfólks geti verið stórhættuleg. Fyrirtækið sendi frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að eitrið hafi einungis verið framleitt í þeim tilgangi að drepa skordýr og virða þurfi aðvaranir á umbúðum eitursins í hvívetna.

Í myndböndum sem farið hafa um samfélagsmiðla sést presturinn sprauta skordýraeitrinu beint í augu safnaðarmeðlima sína og á mismunandi líkamsparta þeirra. Í viðtali við fjölmiðla lýsti Rabalago því meðal annars hvernig hann sprautaði eitrinu í andlit konu sem var með augnsýkingu og hélt því fram að eftir á hefði hún „verið alheilbrigð vegna þess að hún hefði trú á Guði“.

Í Suður-Afríku fjölgar hratt tilvikum þar sem fólk boðar óhefðbundnar lækningar en til eru dæmi þess að sjálfskipaðir predikarar sannfæri safnaðarmeðlimi sína um að leita sér lækningar með því að éta snáka eða drekka bensín.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×