Erlent

Fillon og Juppé munu kljást um útnefningu franskra Repúblikana

Atli Ísleifsson skrifar
Francois Fillon var forsætisráðherra Frakklands á árunum 2007 til 2012.
Francois Fillon var forsætisráðherra Frakklands á árunum 2007 til 2012. Vísir/AFP
Fyrrverandi forsætisráðherrarnir Francois Fillon og Alain Juppé munu etja kappi um hver verður forsetaefni franska Repúblikanaflokksins í síðari umferð kjörsins sem fram fer um næstu helgi.

Fillon hlaut flest atkvæði í fyrri umferðinni um nýliðna helgi. Hann þykir líklegastur til að hreppa hnossið eftir að fyrrverandi forsetinn Nicolas Sarkozy, sem einnig bauð sig fram, lýsti yfir stuðningi við Fillon þegar hann lýsti yfir eigin ósigri.

Forsetakosningar fara fram í Frakklandi næsta vor og benda skoðanakannanir til að forsetaefni Repúblikana muni kljást við Marine Le Pen, leiðtoga Front National, í síðari umferð kosninganna. Sósíalistar munu velja sitt forsetaefni í janúar, en sósíalistinn Francois Hollande Frakklandsforseti hefur enn ekki lýst því yfir hvort hann sækist eftir endurkjöri.

Fillon hlaut 44,2 prósent atkvæða í fyrri umferð kosninganna, Juppé 28,4 prósent og Nicolas Sarkozy 20,7 prósent. Litlu munaði að Fillon næði 50 prósent atkvæða sem hefði gert síðari umferðina óþarfa.

Skoðanakönnun BVA frá í september benti til að 61 prósent Frakka myndu kjósa hinn 62 ára Fillon í síðari umferð forsetakosninga þar sem valið stæði milli hans og Le Pen.

Juppé er borgarstjóri Bordeaux og gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1995 til 1997. Fillon var forsætisráðherra Frakklands á árunum 2007 til 2012.

Alain Juppé.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×