Fótbolti

Van Persie í guðatölu eftir gærkvöldið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Vísir/Getty
Robin van Persie komst nánast í guðatölu hjá stuðningsmönnum Fenerbahce eftir frammistöðu sína í gærkvöldi þegar hann tryggði liðinu sigur á nágrönnunum og erkifjendunum.

Van Persie skoraði þá bæði mörk Fenerbahce-liðsins í 2-0 sigri á Galatasaray í Kitalararasi derby-leiknum í Istanbul.

Það gerist ekki á hverjum degi en Robin van Persie varð í gær fyrsti maðurinn í meira en þrjú ár sem nær að skora tvö mörk fyrir Fenerbahce á móti erkifjendum þeirra.

Robin van Persie byrjaði tímabilið rólega og skoraði aðeins 1 mark í fyrstu átta umferðunum. Hann missti reyndar af tveimur leikjum vegna meiðsla.

Van Persie skoraði í Evrópudeildarleik á móti sínum gömlu félögum (Manchetser United) og á sínum gamla heimavelli (Old Trafford) og það virðist hafa kveikt í kappanum.

Robin van Persie hefur nú skorað fimm mörk og gefið eina stoðsendingu í síðustu þremur leikjum Fenerbahce og Fenerbahce liðið hefur unnið þá alla með markatölunni 10-1.

Fenerbahce er í þriðja sæti tyrknesku deildarinnar en Galatasaray er bara í fimmta sætinu. Besiktas er í efsta sæti einu stigi á undan Basaksehir.

Robin van Persie er annars sannkallaður maður derby-leikjanna. Hann hefur nefnilega skorað fyrir Feyenoord  á móti Ajax í „De Klassieker“, hann hefur skorað fyrir Arsenal á móti Tottenham í Norður London slagnum og svo fyrir Manchester United á móti Manchester City í Manchester-slagnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×