Körfubolti

Kári með fimm þrista í sigri Drekanna | Þetta gerðu íslensku krakkarnir í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson.
Kári Jónsson. Vísir/Auðunn
Kári Jónsson var sjóðandi heitur fyrir utan þriggja stiga línuna í bandaríska háskólakörfuboltanum í gær þegar Drekarnir úr Drexel skólanum unnu flottan sigur á North Texas. Fullt af íslenskum krökkum voru að spila í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Kári Jónsson var með 15 stig og 3 stoðsendingar í 83-62 sigri Drexel en hann hitti úr 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Kári var einnig með 2 stolna bolta á þeim 30 mínútum sem hann spilaði í leiknum eftir að hafa komið inn af bekknum.

Kári var næststigahæstur í sínu liði og aðeins tveir leikmenn liðsins gáfu fleiri stoðsendingar. Kári skoraði 5 af 12 þriggja stiga körfum Drexel en hann hefur stimplað sig vel inn á sínu fyrsta tímabili.

Jón Axel Guðmundsson og félagar í Davidson unnu átta stiga sigur á Arizona State, 68-60. Jón Axel var í byrjunarliðinu og hann var með 5 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar, 1 stolinn bolta og 1 varið skot á 32 mínútum.

Elvar Már Friðriksson og félagar í Barry skólaliðinu unnu tólf stiga sigur á Florida Tech um helgina, 96-84. Elvar Már var með 13 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar í leiknum.

Kristinn Pálsson og félagar í Marist skólanum hafa ekki byrjað nógu vel en liðið tapaði sínum fjórða leik í nótt. Marist tapaði þá 84-72 fyrir Grand Canyon. Kristinn Pálsson tók ekki eitt skot á þeim 17 mínútum sem hann spilaði en var með 3 fráköst og 1 stoðsendingu.

Það gekk ekki vel hjá liðum íslensku stelpnanna sem töpuðu öll.

Sara Rún Hinriksdóttir og Margrét Rósa Hálfdanardóttir og félagar í Canisius þurftu að sætta sig við 9 stiga tap á móti Akron, 64-73. Sara Rún kom með 15 stig og 6 stoðsendingar inn af bekknum en Margrét Rósa var í byrjunarliðinu og endaði með 9 stig og 2 fráköst.

Lovísa Henningsdóttir og félagar í Marist skólanum töpuðu 50-46 fyrir Holy Cross um helgina. Lovísa var í byrjunarliðinu og var með 3 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 2 varin skot á 28 mínútum.

Hildur Björg Kjartansdóttir og félagar í UT Rio Grande Valley töpuðu 54-70 á móti Abilene Christian um helgina. Hildur var með 2 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar, 1 stolinn bolta og 1 varið skot á 29 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×