Erlent

Fimmta mannskæðasta lestarslys í sögu Indlands

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lestarslys eru tíð á Indlandi og dauðsföll tengd lestum algeng.
Lestarslys eru tíð á Indlandi og dauðsföll tengd lestum algeng. vísir/epa
Minnst 115 eru látnir og um 150 slasaðir eftir að lest fór út af sporinu í norðurhluta Uttar Pradesh-héraðs á Indlandi í gær. Fjöldi látinna jókst jafnt og þétt í allan gærdag. Líklegt er talið að sú þróun gæti haldið áfram í dag.

Björgunarmenn unnu allan daginn í gær að því að draga lík og slasaða úr vögnunum fjórtán sem fóru af sporinu. Slysið varð skammt frá þorpinu Pukhrayan. Uttar Pradesh er í norðurhluta Indlands við landamærin að Nepal.

Orsök slyssins er ókunn en indverskir miðlar, þar á meðal Times of India, hafa gert því skóna að sködduðum teinum hafi verið um að kenna. Slysið átti sér stað klukkan þrjú að nóttu að staðartíma. Farþegar sem komust lífs af lýsa því hvernig þeir hrukku upp með andfælum við mikið högg. Sjónin sem blasti við þeim í birtingu hafi verið skelfileg. Flestir hinna látnu voru í fremstu tveimur vögnunum en þeir ultu þegar lestin fór út af sporinu.

Hluti vagnanna er afar illa farinn sem gerir björgunarmönnum erfitt um vik með að komast að hinum særðu. Klippum hefur verið beitt en illa hefur gengið að láta þær ná í gegnum vagnana.

Slysið er fimmta mannskæðasta lestarslys í sögu Indlands. Lestarkerfi landsins er hið þriðja lengsta í heimi og brúkað af um 22 milljónum farþega daglega. Mörg þúsund manns deyja í slysum tengdum lestum ár hvert og til dæmis fórust rúmlega 27.500 í slíkum slysum árið 2014.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×