Innlent

Tæpur þriðjungur kennara í Réttarholtsskóla sagði upp störfum í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Átta af 27 kennurum Réttarholtsskóla sögðu upp störfum í dag. Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtssskóla, segir að uppsagnirnar hafi borist til sín rétt fyrir klukkan 16.

Samkomulag náðist í kjaradeilu grunnskólakennara í gær er samningurinn kveður á um hækkun á launum kennara um tæp ellefu prósent, eða 10,8 prósent, og að þeir fá tvö hundruð þúsund króna eingreiðslu. Samningurinn er til eins árs en eingreiðslan er uppbót fyrir þann tíma sem kennarar hafa verið samningslausir.

Jón Pétur segir að kennararnir muni að óbreyttu hætta 1. mars næstkomandi. „Það væri töluvert áfall fyrir okkur að missa átta mjög góða kennara úr kennaraliðinu. Skólinn er ekkert annað en mannauðurinn í skólanum. Það eru ekki veggirnir eða borðin sem eru að kenna.“

Þessari deilu virðist á engan hátt lokið og kennarar eru greinilega ósáttir við samninginn.

„Ég held að kennarar séu bara ósáttir með launin sem þeir eru með og hafa verið í mjög langan tíma. Ég held að þurfi bara að bæta launin verulega og ekki taka neina áhættu með það að missa fólk úr stéttinni því ekki eru nemar sem bíða í röðum eftir að skrá sig í nám í Kennaraháskólanum,“ segir Jón Pétur.

Þeir kennarar sem skliluðu inn uppsagnarbréfi í dag, fannst þér á þeim að þessi samningur væri vonbrigði?

„Já, annars hefðu þeir ekki skilað inn uppsagnarbréfunum. Þeir bjuggust við meiru. Þetta er allt fólk sem er framúrskarandi þannig að það á allt auðvelt með að fá vinnu annars staðar. Ég vona að það verði einhver breyting á. Ég veit ekki hvað þarf til að þetta fálk hætti við uppsagnir. Það þarf allavega eitthvað að breytast,“ segir Jón Pétur.


Tengdar fréttir

Kjarasamningurinn kemur í veg fyrir hópuppsögn kennara

Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga sömdu um kjaramál kennara í gærkvöldi. Fjöldi kennara ætlaði að segja upp störfum í hádeginu í dag en yfir hundrað kennarar hafa sagt upp í deilunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×