Innlent

New York Times fjallar um leynd ljóðskáld Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin er samsett.
Myndin er samsett. Vísir/Ernir/Vilhelm
„Ísland er troðið af leyndum ljóðskáldum,“ segir í grein bandaríska dagblaðsins New York Times þar sem fjallað er um að ljóðskáld á Íslandi virðast koma úr öllum áttum.

„Þegar þeir eru ekki í dagvinnunni sinni, er stór hluti Íslendinga að semja ljóð, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn, viðskiptajöfrar eða vísindamenn,“ segir í grein New York Times.

Þar er fjallað um stjórnmálamennina Davíð Oddsson og Birgittu Jónsdóttur sem bæði hafa gefið út og birt ljóð. Þá er einnig rætt stuttlega við Kára Stefánsson og vitnað í ljóð sem hann samdi árið 1996, stuttlega eftir að kindin Dolly var klónuð.

„Ég var svolítið þunglyndur,“ segir Kári. „Ég glímdi við það með því að semja lítið ljóð.“

Þá er einnig rætt við Svein Yngva Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hann útskýrir að ljóðagerð sé hluti af því að vera Íslendingur.

Fyrr á öldum hafi ljóðalestur og ljóðagerð verið lykilhluti af skemmtanalífi Íslendinga. Þá útskýrir Sveinn Yngvi ljóðagerð Íslendinga með tilliti til veðursins og þeirrar staðreyndar að stóran hluta ársins sé bæði kalt og dimmt á Íslandi.

„Fólki getur leiðst og þá er reynt að skemmta sér,“ segir Sveinn Yngvi. „Ein af leiðum til þess er ljóðagerð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×