Innlent

Nýr samningur mætir ekki kröfum kennara

Ingibjörg Bára SVeinsdóttir skrifar
Vöfflukaffi hjá ríkissáttasemjara að lokinni undirritun kjarasamningsins í fyrradag.
Vöfflukaffi hjá ríkissáttasemjara að lokinni undirritun kjarasamningsins í fyrradag. vísir/stefán
Trúnaðarmenn kennara voru áhyggjufullir þegar þeim var kynntur nýr kjarasamningur á fundi með Félagi grunnskólakennara í gærmorgun. Þetta segir Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla og trúnaðarmaður kennara þar.

„Ég get ekki séð að menn séu miklu rórri en þeir voru fyrir. Þeir eru að reyna að sjá hver munurinn er á þessum samningi og þeim sem felldir voru tvisvar. Munurinn virðist óverulegur að öðru leyti en því að þessi samningur er til eins árs en hinn var fram á vor 2019.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kveður nýundirritaður samningur Félags grunnskólakennara og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga á um 11 prósenta hækkun, það er 7,3 prósenta hækkun 1. desember og 3,5 prósenta hækkun 1. mars 2017. Jafnframt var samið um eingreiðslu 1. janúar næstkomandi upp á 204 þúsund krónur fyrir 100 prósenta starf. Öll gæsla verður greidd í yfirvinnu frá 1. desember.

Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara í Norðlingaskóla.
Kjarasamningurinn gildir til 30. nóvember 2017.

Ragnar Þór kveðst hafa varpað fram þeirri spurningu á fundi með trúnaðarmönnum og Félagi grunnskólakennara í gær hvort menn væru með plan B ef þessi samningur yrði felldur eins og hinir tveir. „Formaðurinn sagði að hann og samninganefndin myndu þá segja sig frá þessu verkefni. Þá tekur við óvissutími um framhaldið.“

Sjálfur kveðst Ragnar Þór hafa átt von á því að menn gerðu betur, eins og hann orðar það. „Ég bjóst við að þeir myndu koma með jákvæð og uppbyggileg skilaboð inn í framhaldið og taka á þeim bráðavanda sem við stöndum frammi fyrir. Til að ég hafi trú á að svo verði þurfa sveitarfélögin að koma með útspil um að eitthvað meira gerist en að kreista þetta í gegn.“

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um samninginn mun liggja fyrir mánudaginn 12. desember.

Að mati Ragnars Þórs gæti vel farið svo að samningurinn verði felldur. „Þetta er ákaflega erfið staða.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×