Enski boltinn

Bó getur ekki sungið um Axel því hann verður ekki heima um jólin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Axel Andrésson í búningi Bath City.
Axel Andrésson í búningi Bath City. Mynd/bath
Unglingalandsliðsmaðurinn Axel Andrésson er orðinn upppáhaldið hjá stuðningsmönnum Bath og hann ætlar að spila þar áfram um jól og áramót.

Axel Óskar Andrésson, U19 ára landsliðsmaður Íslands í fótbolta, er kominn í mikið uppáhald hjá stuðningsmönnum utandeildarliðsins Bath City þar sem Axel er á láni frá Reading.

Hann ætlar ekki að koma heim um jólin heldur spila áfram á Englandi um hátíðarnar.

Axel, sem er fæddur árið 1998, samdi við Reading fyrir tveimur árum og hefur verið þar að spila með unglingaliðunum en í lok nóvember var hann lánaður til Bath sem spilar í sjöttu efstu deildinni á Englandi.

Þessi stóri og sterki miðvörður, sem á að baki 21 landsleik fyrir U17 og sjö leiki fyrir U19, fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína um síðustu helgi þegar Bath lagði Whitehawk, 2-0.

„Hann er bara 18 ára og það er ógnvekjandi. Hann kemur inn með svo flotta hluti. Þetta er góður strákur og svo er hann með allt skipulag á hreinu,“ segir Garry Owers, knattspyrnustjóri Bath, um Mosfellinginn.

„Leikmönnunum líkar vel við hann og stuðningsmennirnir voru byrjaðir að syngja um hann undir lok leiksins þannig þeir eru líka ánægðir með strákinn. Ég vil halda honum hér eins lengi og ég get.“

„Ég fékk símtal frá Reading en þar var mér sagt að hann ætti flugmiða bókaða heim til Íslands um jólin þar sem hann ætlaði að vera hjá fjölskyldunni sinni. En hann er hættur við það því hann vill vera hér áfram og spila með okkur sem er frábært,“ segir Garry Owers.

Axel hefur ekki langt að sækja íþróttahæfileika og hvað þá hæðina eða styrkinn því faðir hans er kraftajötuninn og guðfaðir Skólahreystis á Íslandi, Andrés Guðmundsson.

Hann er uppalinn hjá Aftureldingu og spilaði átta leiki í 2. deildinni fyrir Mosfellsfélagið og þrjá í bikar áður en hann var fenginn út til Reading.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×