Innlent

Í gæsluvarðhaldi í tæpt ár grunaður um nauðgun og gróft ofbeldi gegn sambýliskonu sinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og beitt hana ofbeldi á meðan.
Maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og beitt hana ofbeldi á meðan. vísir/getty
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þess efnis að maður sem ákærður er fyrir að nauðga sambýliskonu sinni og beita hana grófu ofbeldi í byrjun febrúar á þessu ári skuli sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til 5. janúar næstkomandi.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan þann 7. febrúar og mun hann því hafa verið í gæsluvarðhaldi í tæpt ár verði hann látinn laus í byrjun janúar. Fyrstu þrjá dagana var hann í haldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðan á grundvelli almannahagsmuna.

Í liðinni viku ómerkti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manninum sem sakfelldi hann í júní meðal annars fyrir nauðgun og líkamsárás. Var maðurinn dæmdur í fangelsi í tvö og hálft ár en vegna ómerkingarinnar þarf málið nú að fara aftur fyrir héraðsdóm.

 

Í gæsluvarðhaldskröfu sinni nú vísar héraðssaksóknari í ákæruna en maðurinn er meðal annars grunaður um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og beitt hana ofbeldi á meðan. Þá á hann að hafa neytt hana til munnmaka og endaþarmsmaka. Konan hlaut töluverða áverka en meðal annars brotnaði jaxl í efri gómi hennar, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms.

Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur fallast á það að maðurinn skuli áfram vera í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna enda sé hann undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varða meira en 10 ára fangelsi.

Úrskurð héraðsdóms og dóm Hæstaréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×