Erlent

Íbúar fluttir frá Aleppo í sjúkrabílum og strætisvögnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Aðstoða þurfti fjölda fólks til að komast yfir í bílalestina sem flutti íbúa Aleppo burt.
Aðstoða þurfti fjölda fólks til að komast yfir í bílalestina sem flutti íbúa Aleppo burt. Vísir/AFP
Sjúkrabifreiðar og grænir strætisvagnar hófu í gær brottflutning fólks frá umsetnu svæðunum í Aleppo, eftir að vopnahlé tók þar gildi.

Síðdegis í gær höfðu þrettán sjúkrabifreiðar og tuttugu strætisvagnar lagt af stað áleiðis til svæða uppreisnarmanna utan borgarinnar, að því er breska dagblaðið The Guardian hafði eftir starfsmönnum Rauða krossins, en þeir hafa umsjón með fólksflutningunum ásamt starfsfólki Rauða hálfmánans.

Þá skýrðu rússneskir fjölmiðlar frá því að byrjað væri að flytja um fimm þúsund uppreisnarmenn frá borginni ásamt fjölskyldum þeirra.

Nokkru síðar var skýrt frá því að tuttugu strætisvagnar og 27 minni vagnar hafi komið til borgarinnar Sarmada með 1.050 almenna borgara og 150 særða, eins og það var orðað.

„Til þess að vígamennirnir geti yfirgefið borgina hefur verið afmörkuð 21 kílómetra löng landræma í mannúðarskyni,“ hafði rússneski fréttavefurinn RT eftir Valerí Gerasimov, formanni rússneska herráðsins. „Þar af eru sex kílómetrar sem liggja í gegnum þau svæði í Aleppo sem stjórnarherinn hefur á valdi sínu og aðrir fimmtán kílómetrar liggja vestur af borginni í gegnum svæði sem eru á valdi vígasveitanna,“ sagði hann.

Samið var um vopnahlé til að gera fólki kleift að komast burt gegn því að uppreisnarsveitir láti stjórnarhernum af hendi þau hverfi í austurhluta borgarinnar, sem enn voru á valdi þeirra.

Uppreisnarmenn gegn stjórn Bashars al Assad forseta hafa haft austurhluta borgarinnar Aleppo á sínu valdi árum saman en undanfarnar vikur hefur stjórnarherinn gert harða hríð að þeim í þessum hverfum með sprengjuárásum, með þeim árangri að uppreisnarmenn hafa misst yfirráðin og eru að hverfa á braut.

Stjórnarherinn hefur þar ekki eingöngu notið aðstoðar frá Rússum, heldur einnig frá Írönum og líbönsku Hezbollah-samtökunum.

Það voru síðan Rússar og Tyrkir sem höfðu milligöngu í samningaviðræðum um vopnahléið, sem varð að veruleika í gærmorgun. Rússar styðja stjórn Assads forseta en Tyrkir hafa stutt uppreisnarmennina, rétt eins og Bandaríkin og önnur vestræn ríki.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×