Innlent

Fagna 75 milljónum en þurfa 300

Tillaga um 75 milljóna króna aukafjárveitingar til Landhelgisgæslunnar, sem kemur fram í fjáraukalögum, nægir nokkurn veginn til að rekstur gæslunnar sleppi fyrir horn í ár. Hún breytir þó engu um nauðsynlegan niðurskurð í rekstri á næsta ári. Minnst 300 milljónir króna vantar til þess að ekki þurfi að skila einni þyrlu og segja upp varðskipsáhöfn.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, fagnar þó þessu framlagi.

„Þetta hjálpar okkur verulega við að loka árinu 2016. Þarna er um að ræða tillögu til aukafjárlaga og sýnir góðan hug alþingismanna til okkar. Við vonum að þetta sé vísbending fyrir árið 2017 en þetta breytir engu upp á áætlanir í rekstri ársins 2017,“ segir Georg.

Hann sagðist vonast til þess að þetta gæti verið til marks um að 2017 verði ekki eins slæmt og útlit sé fyrir. Þörf sé á 300 milljónum, að algjöru lágmarki, svo hægt sé að halda út lágmarksþjónustu.

„Þá á ég við bæði með þyrlum og varðskipum. Ef að við fáum ekki 300 milljónir 2017 þurfum við að grípa til sársaukafullra aðgerða. Sem meðal annars felast í því að skila einni af þremur þyrlum og fækka úthaldsdögum á varðskipum verulega þannig að það verða um 150 dagar á ári þar sem ekki verður eitt varðskip til taks, hvað þá annað,“ sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×