Menning

Ljóðakvöld á Norðurbakkanum

Magnús Guðmundsson skrifar
Kristian Guttesen ljóðskáld verður á meðal skáldana sem lesa upp í Hafnarfirði í kvöld.
Kristian Guttesen ljóðskáld verður á meðal skáldana sem lesa upp í Hafnarfirði í kvöld. Visir/Pjetur
Það er víða lesið úr nýjum bókum þessa dagana og bókakaffið á Norðurbakkanum lætur ekki sitt eftir liggja. Þar verður haldið ljóðakvöld í kvöld klukkan átta og þangað mæta Þorsteinn frá Hamri, Sunna Ross, Sigurbjörg Þrastardóttir og Kristian Guttesen og lesa úr verkum sínum.

Þorsteinn frá Hamri er á meðal þekktustu skálda þjóðarinnar en fyrsta ljóðabók hans kom út árið 1958. Þorsteinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir skáldskap sinn en nú í haust sendi hann frá sér ljóðabókina Núna sem hefur hlotið afar góðar viðtökur.

Sunna Ross er ungt skáld og myndlistarkona frá Eiðum. Nýverið birtust nokkur ljóð eftir hana í safninu Bók sem allir myndu lesa– ljóð ungra austfirskra höfunda, sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gaf út í tilefni af tuttugu ára afmæli félagsins.

Sigurbjörg Þrastardóttir er fædd á Akranesi. Fyrsta bók hennar, ljóðabókin Blálogaland, kom út árið 1999 en síðan hefur hún á víxl sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur og leikverk. Nú í haust sendi Sigurbjörg frá sér örsögur undir undir titlinum Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur.

Kristian Guttesen er fæddur í Danmörku þar sem hann ólst upp fyrstu ár ævi sinnar. Hann hefur búið á Íslandi frá 1985, en dvaldi við nám í Wales frá 1995 til 1999. Fyrsta bók Krist­ians, Afturgöngur, kom út árið 1995, en alls hefur hann gefið út tíu frumortar ljóðabækur. Kynnir kvöldsins verður Birgitta Jónsdóttir. Njótum aðventunnar saman.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.