Innlent

Magni skallaði borðið er hann var sakaður um morð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Magni með unnustu sinni, Söru Hatt.
Magni með unnustu sinni, Söru Hatt. Mynd/Sara Hatt
„Þegar grunuðum var greint frá því að hann væri sakaður um morð skallaði hann borðið endur­tekið og féll í gólfið,“ segir í skýrslu lögreglunnar í Jacksonville í Flórída um handtöku Magna Böðvars Þorvaldssonar, öðru nafni Johnny Wayne Johnson.

Magni, sem er með tvöfalt ríkisfang, er ákærður fyrir að hafa myrt Sherry Prather árið 2012.

Málið verður þingfest í dag. Þá getur Magni lýst sakleysi eða sekt.

„Ég held að þetta verði ósanngjörn réttarhöld,“ segir Sara Hatt, unnusta Magna, í samtali við Fréttablaðið. Meðal þess sem kemur fram í skýrslu lögreglunnar er að Magni hafi verið með skammbyssu sem áður hafði verið hleypt af og að það sem einkenndi Magna væri „gervilegur íslenskur hreimur“.

Atburðarás málsins er þá rakin í skýrslunni. Lögreglan víkur meðal annars að handtökunni sjálfri. Magni var handtekinn á heimili sínu og fluttur á lögreglustöð þar sem yfirheyrsla fór fram. Játaði hann þar á ný að hafa yfirgefið barinn Boots and Bottles með Prather og sagðist hafa skilið við hana á Trout River Boulevard. Segir í skýrslunni að hann hafi breytt smáatriðum úr fyrri útgáfu sögu sinnar til að útskýra sönnunargögn sem lögregla sýndi honum.

Magni þvertók fyrir að hafa myrt Prather og krafðist þess að fá lögfræðing á staðinn. Þegar lögregla sagði Magna frá því að hann væri sakaður um morðið byrjaði hann svo að skalla borðið eins og sagt var frá hér að framan.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×