Erlent

Sýrlenskum uppreisnarmönnum leyft að yfirgefa austurhluta Aleppo

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Stjórnarliðar í Aleppo.
Stjórnarliðar í Aleppo. Vísir/EPA
Samningur er í höfn um að uppreisnarmenn fái að yfirgefa austurhluta Aleppo, að sögn sendiherra Rússlands hjá Sameinuðu Þjóðunum. Uppreisnarmenn hafa staðfest samninginn.  BBC greinir frá.

Sýrlenski stjórnarherinn er við það að ná allri borginni á sitt vald eftir mikla sókn undanfarnar vikur í skjóli rússneskra loftárása. Rússneski herinn heldur því fram að 98 prósent borgarinnar sé nú undir yfirráðum stjórnarliða.

Sendiherrann, Vitaly Churkin sagði að samningurinn gilti ekki um saklausa borgara, en þúsundir þeirra eru strandaglópar í stríðshrjáðri borginni. Margir þeirra hafa nýtt sér samskiptamiðla til að lýsa hræðilegu ástandi í borginni og biðlað til alþjóðasamfélagsins um að hjálpa sér.

Erfitt er að festa tölu á hversu margir saklausir borgarar eru í austurhluta borgarinnar en heimildarmenn fréttastofu BBC segja það vera allt að 100 þúsund manns.

Sjá einnig: Fjöldamorð sögð eiga sér stað í Aleppo

Churkin sagði að samningnum gæti verið fylgt eftir „innan nokkurra klukkustunda.“ Sagði hann jafnframt að saklausir borgarar gætu komið sér í öruggt skjól meðal hjálparsamtaka í borginni og að enginn myndi ráðast á þá.

Þá endurtók Churkin fullyrðingar rússneskra stjórnvalda um að engin fjöldamorð ættu sér stað í borginni.

Misvísandi fregnir eru uppi um hvort að saklausum borgurum verði einnig leyft að yfirgefa borgina, en fréttir hafa borist af því að Tyrkir og Rússar muni sjá um að framfylgja samningnum og að saklausum borgurum verði leyft að flýja svæðið, þvert á fullyrðingar rússneska sendiherrans.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna situr nú neyðarfund vegna ástandsins í Aleppo.

Fréttir um samninginn bárust eftir að Sameinuðu þjóðirnar staðfestu að stjórnarliðar hefðu gerst sekir um fjöldamorð á almennum borgurum í borginni í gær og í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×