Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Arsenal getur komist á toppinn | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tveir leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Á Goodison Park mætast Everton og Arsenal og á Vitality Stadium eigast Bournemouth og Leicester City við. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:45. Leikur Arsenal og Everton verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Gengi Arsenal og Everton hefur verið ólíkt að undanförnu. Skytturnar eru taplausar í 14 leikjum í röð og sitja í 2. sæti deildarinnar með 34 stig. Með sigri í kvöld kemst Arsenal á toppinn.

Everton hefur hins vegar ekkert getað að undanförnu og aðeins unnið einn af síðustu 10 leikjum sínum. Góð byrjun á tímabilinu þýðir hins vegar að liðið er í 9. sæti deildarinnar með 20 stig.

Arsenal hefur gengið vel með Everton undanfarin ár og aðeins tapað einum af síðustu 18 deildarleikjum liðanna.

Leicester minnti hressilega á sig í síðustu umferð þegar Englandsmeistararnir tóku Manchester City í bakaríið og unnu 4-2 sigur. Jamie Vardy skoraði þrennu í leiknum.

Bournemouth tapaði 3-2 fyrir Burnley á útivelli í síðustu umferð. Bournemouth hefur gengið afar vel á heimavelli í vetur og náð í 13 af 18 stigum sínum þar.

Leicester er ósigrað í síðustu sex leikjum gegn Bournemouth. Síðasti sigur Bournemouth á Leicester kom í mars 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×