Erlent

Fimmtán ára afmælið varð að gríni sem fór úr böndunum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Rubi með foreldrum sínum.
Rubi með foreldrum sínum. vísir/afp
Einn maður lést og annar slasaðist í afmælisveislu hinnar fimmtán ára Rubi Ibarra Garcia á mánudag eftir að hafa orðið undir hesti. Tugir þúsunda mættu í veislu stúlkunnar eftir að faðir hennar birti myndband á netinu þar sem hann sagði alla velkomna – en bjóst þó ekki við að boðskortið færi fyrir augu annarra en nánustu aðstandanda.

Maðurinn sem lést hét Felix Pena og var 66 ára. Hann varð undir hesti sínum sem atti kappi í kappreiðum í afmælinu, en hinn maðurinn slapp með beinbrot. Ekki er vitað hvers vegna mennirnir tveir hættu sér út á völlinn en málið er í rannsókn lögreglu. Fjölmiðlar ytra hafa birt myndband af því þegar Pena varð undir hestinum en rétt er að vara viðkvæma við myndskeiðinu.

Fólk lét útbúa sérstakar andlitsgrímur fyrir afmælið.vísir/afp
Grín sem fór úr böndunum

Boðskortið var í myndbandsformi og sett inn á YouTube. Ljósmyndari einn ákvað að deila myndbandinu á netinu í gríni og æ fleiri tóku þátt í brandaranum. Fyrr en varði höfðu yfir 800 þúsund manns deilt myndskeiðinu og 1,2 milljónir manna boðað komu sína í partýið.

Fyrirtæki og stjörnur sáu sóknarfæri í brandaranum og auglýstu út á hann. Flugfélagið Interjet bauð 30 prósent afslátt af flugferðum til heimabæjar Ibarra fjölskyldunnar, San Luis Potosí í Mexíkó, söngvarar sömdu lag stúlkunni til heiðurs og þá reyndu framleiðendur sjónvarpsþátta að fá stúlkuna til starfa.

Allt að 30 þúsund manns í veislunni

Fimmtán ára afmælisveislan er stór stund í lífi ungmenna í Mexíkó. Hún svipar til ferminga hér á landi en á þessum degi eru ungmennin tekin í fullorðinna manna tölu. Quinceañera líkt og það kallast á frummálinu.

Veislan var haldin í almenningsgarði og var öllu til tjaldað. Hljómsveitir stigu á svið, kappreiðar voru haldnar og boðið var upp á veigar í fljótandi og föstu formi, svo fátt eitt sé nefnt. Verðlaunafé í kappreiðunum var rúmlega 55 þúsund krónur. Tölur um fjölda veislugesta eru á reiki en talið er að þeir hafi verið á milli 20 til 30 þúsund.

Bein útsending frá partý-inu

Fjölmiðlaumfjöllun í aðdraganda veislunnar var gríðarleg og mættu allir helstu fjölmiðlar landsins á samkomuna, í raun svo margir að afmælisbarnið sjálft komst varla í gegnum allan þann her ljósmyndara og blaðamanna sem vildu ólmir ná myndum og viðtölum við það. Þá var afmælisveislan á nokkrum sjónvarpsstöðvum í beinni útsendingu.

Mikil öryggisgæsla var á svæðinu en borgarstjórinn hafði leitað til næstu bæja og óskað eftir aðstoð við eftirlitið. Fjöldi sjálfboðaliða frá Rauða krossinum, sjúkraflutningamanna og lögreglumanna stóðu vaktina og settar voru upp girðingar umhverfis kappreiðarnar og fólk beðið um að halda sig fjarri vellinum. Tveir menn virtu þær reglur hins vegar að vettugi og fóru inn á völlinn með þeim afleiðingum að annar lést og hinn liggur nú á sjúkrahúsi.

Rubi hefur varla haft undan fyrir allri athyglinni. Hún hefur þegar setið fyrir á forsíðu slúðurtímarits og fjölskyldan hefur mætt í fjölmarga sjónvarpsþætti í vikunni. Faðir Rubi-ar fullyrðir að hann hafi aldrei ætlað að bjóða svo mörgum, en af viðtölum að dæma sér hann ekki eftir því, og aldrei kom til greina að aflýsa viðburðinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×