Erlent

Kínverjar ætla sér til Mars fyrir árið 2020

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kínverskir geimfarar.
Kínverskir geimfarar. Vísir/EPA
Kínverjar ætla sér að koma geimflaug til Mars fyrir lok þessa áratugar. Þetta tilkynnti geimferðastofnun landsins á blaðamannafundi á þriðjudag. CNN greinir frá.

Geimferðaráætlun Kínverja sem kynnt var á blaðamannafundinum er vægast sagt metnaðarfull en Kínverjar ætla sér að koma könnunarflaug til myrku hliðar tungslins fyrir lok ársins 2018 og þá ætla þeir sér einnig að koma geimflaug til Mars fyrir lok ársins 2020.

Í máli Wu Yanhua, forstöðumanni Kínversku geimferðarstofnunarinnar kom fram að markmið stofnunarinnar væri að koma könnunarfari til Mars fyrir lok áratugarins til þess að rannsaka geimhjúp plánetunnar.

Síðan ætla Kínverjar sér að koma öðru könnunarfari til plánetunnar, sem á að rannsaka yfirborð plánetunnar rauðu auk þess sem önnur markmið geimferðarstofnunarinnar eru að rannsaka plánetuna Júpíter og tungl hennar.

„Langtímamarkmið okkar er að fyrir árið 2030 verði Kína orðið eitt stærsta geimferðaveldi plánetunnar“ sagði Yanhua en lagði áherslu á að geimferðaráætlun Kínverja væri í friðsamlegum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×