Erlent

Rúss­ar skoð­a flug­rit­a flug­vél­ar­inn­ar sem hrapaði í Svart­a­haf­ið

Samúel Karl Ólason skrifar
Umfangsmikið leitar- og björgunarstarf hefur farið fram á í Svartahafinu.
Umfangsmikið leitar- og björgunarstarf hefur farið fram á í Svartahafinu. Vísir/AFP
Rannsakendur í Rússlandi skoða nú annan flugrita flugvélarinnar sem brotlenti í Svartahafið á sunnudaginn. 92 létu lífið í slysinu og þar af 64 meðlimir hins þekkta kórs rússneska hersins. Þá hafa rannsakendur einnig komið höndum yfir myndband af flugvélinni taka á loft frá Sochi, þar sem henni hafði verið lent til að taka eldsneyti, og brotlenda skömmu seinna.

Tólf lík hafa fundist og einnig hefur hluti flugvélarinnar og hreyfill verið náð af hafsbotni. Talið er að hinn flugritinn hafi einnig fundist, en ekki hefur tekist að sækja hann.

Samkvæmt frétt BBC liggur ástæða þess að flugvélin brotlenti ekki enn fyrir. Hins vegar er talið ólíklegt að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Þá er haft eftir ónefndum heimildarmanni Interfax fréttaveitunnar að mögulega hafi flugvélin verið ofhlaðin. Vitni segja hana ekki hafa náð hæð eftir flugtak.

Flugvélin var á leið til Sýrlands þar sem kórinn átti að flytja tónleika á gamlárskvöld. Henni var lent í Sochi til að taka eldsneyti og svo hvarf hún af ratsjám um tveimur mínútum eftir flugtak.

Hljóðupptökur af síðustu samskiptum flugumferðarstjóra og flugstjóra flugvélarinnar gefa ekkert í skyn um hvað kom fyrir. Þar voru flugstjórarnir hinir rólegustu en skömmu seinna tókst ekki að ná sambandi við þá aftur.

Þá hafa einnig borist fregnir af því að skömmu áður en flugvélin brotlenti hafi flugstjórar reynt að beygja til hægri nokkrum sekúndum fyrir brotlendinguna. Vélin er sögð hafa lent á hafinu á um 510 kílómetra hraða.

Um er að ræða Tupolev-154 flugvél, sem var 33 ára gömul. Flugfélög í Rússlandi eru hætt að notast við slíkar flugvélar en þær eru enn í notkun hjá hernum.


Tengdar fréttir

Hryðjuverk ekki talin orsök flugslyssins yfir Svartahafi

Þúsundir leituðu farþega rússneskrar herflugvélar sem hrapaði í Svartahaf. Allir farþegarnir 92 eru taldir af. Þjóðarsorg var lýst yfir í gær. Flugritarnir ekki enn fundnir. Flugvélin var af gerðinni Tupolev-154 og voru hermenn, tónlista




Fleiri fréttir

Sjá meira


×