Erlent

Stormurinn Nock-Ten veður yfir Filippseyjar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Strákur leitar skjóls frá Nock-Ten innan um illa farin hús.
Strákur leitar skjóls frá Nock-Ten innan um illa farin hús. Nordicphotos/AFP
Fjórir létu lífið í gær vegna hitabeltisstormsins Nock-Ten á Filippseyjum, þar af þrír í Albay-fylki nærri höfuðborginni Maníla. Stormurinn skall á austurströnd landsins á jóladag og hefur dregið úr honum síðan þá. Þó náði hann nærri 40 metra hraða á sekúndu í gær. Stormurinn stefnir nú að höfuðborginni.

Þá hefur stormurinn einnig valdið gríðarlegu tjóni. Meðal annars hafa rafmagnslínur slitnað og tré rifnað upp með rótum.

Almannavarnastofa Maníla varaði við því í gær að von væri á hvössum vindi og úrhelli sem kynni að valda flóðum. „Almannavarnastofa er í viðbragðsstöðu,“ sagði Mina Marasigan, talskona stofunnar, í viðtali við BBC í gær.

„Við höfum dreift birgðum og nauðsynlegum búnaði víðs vegar um borgina,“ sagði Marasigan enn fremur.

Þá hafa góðgerðarsamtökin Save the Children varað við því að allt að milljón manna gæti þurft á neyðarskýli að halda í dag. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×