Enski boltinn

Mourinho: Ef ég vildi njóta borgar færi ég til LA og væri á ströndinni

Mourinho einbeittur í vinnunni.
Mourinho einbeittur í vinnunni. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Manchester United, segir að það sé kjaftæði að honum hafi líkið vel að búa í London, en ekki í Manchester. Hann sé einungis í Manchester til að vinna.

„Að gefa fólki hugmynd að ég hafi verið ánægður í London, en ekki hér er kjaftæði," sagði Mourinho við stuðningsmannablað United, United We Stand.

„Fjölskylda mín er í London vegna þess að dóttir mín er í háskóla þar. Sonur minn spilar fyrir Fulham. Ég get ekki neytt þau til að fylgja mér, þau hafa líf og þau eru á þeim aldri þar sem þau vilja fljúga."

„Einu sinni í viku, þegar ég get og núna er það erfitt með alla þessa leiki, þá fer ég til London og við borðum saman kvöldverð."

Mikið hefur verið rætt um að Mourinho sé óánægður á hótelinu sem hann býr á, en hann hefur enn ekki fundið sér hús til að búa í. Hann segist þó bara vera að vinna.

„Ég fer ekki til borgar til að njóta borgarinnar, ég fer til að vinna. Ef ég vildi njóta staða þá færi ég til Los Angeles og færi á ströndina á hverjum degi."

„Ég er mættur á æfingarvöllinn klukkan 8 alla daga og á eðlilegum degi þá fer ég heim klukkan 18. Ég gef allt sem ég á. Ég hef ekkert meira til að gefa frá mínum bæjardyrum séð hvað varðar tíma, ástríðu og metnað," sagði Mourinho.

United vann góðan sigur á Sunderland í dag, 3-1, en þetta var fjórði deildarsigur United í röð. Þeir eru komnir á gott ról og eru með jafn mörg stig og Tottenham sem er í fimmta sætinu, en þeir eiga þó leik til góða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×