Fótbolti

Ó­­­trú­­legir víta­­­dómar í Þýska­landi: Tóku boltann upp tvisvar í sama leiknum

Sindri Sverrisson skrifar
Daniel Heber tók boltann upp með höndum og þá varð að dæma víti.
Daniel Heber tók boltann upp með höndum og þá varð að dæma víti. Skjáskot/Bundesliga

„Þetta er handboltadeildin,“ grínaðist Gummi Ben á Twitter þegar hann deildi myndbandi af hreint ótrúlegum leik í þýsku 2. deildinni í fótbolta. Tvö víti voru dæmd í leiknum vegna þess að menn tóku boltann upp með höndum.

Leikurinn var á milli Magdeburg og Greuther Fürth og endaði með 2-2 jafntefli eftir afar óvenjulega vítaspyrnudóma, sem sjá má á myndbandinu hér að neðan.

Fyrst fékk Magdeburg víti, þegar varnarmaður Fürth, Gideon Jung, tók boltann upp með höndum eftir að markvörðurinn hafði rúllað honum til hans. Jung virtist halda að hann ætti að taka markspyrnu en sú var ekki raunin og því ekki annað í stöðunni en að dæma vítaspyrnu.

Nahuel Noll varði reyndar vítið en Mohammed El Hankouri náði að skora í kjölfarið. Martijn Kaars kom svo Magdeburg í 2-0 skömmu síðar og útlitið gott fyrir heimamenn.

Þá varð hins vegar aftur stórfurðulegt atvik. Roberto Massimo nálgaðist vítateig Magdeburg þegar Jean Hugonet tæklaði hann. Daniel Heber, varnarmaður Magdeburg, var svo viss um að aukaspyrna hefði verið dæmd að hann tók boltann upp með höndum. Þá varð að dæma aftur víti sem Julian Green skoraði úr.

Gestirnir nýttu sér þetta og náðu svo að jafna með marki frá Noel Futkeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×