Skoðun

Ótæk rök fyrir æðri mætti

Svanur Sigurbjörnsson skrifar
Skrif Þorbjarnar Þórðarsonar frá 22. des. 2016 í þessum miðli voru athyglisverð hvað stílbrögð varðar, en ótæk hvað rök fyrir æðri mætti og þjóðkirkjuskipan varðar.  Hér skrifa ég andsvar til þín Þorbjörn þar sem ég færi rök fyrir því að spurningunni um æðri mátt sé nú þegar svarað hvað vísindin varðar; hann er ekki til, og að engin réttmæt siðferðileg rök styðji við þjóðkirkjuskipan. Hugum fyrst að því sem þú fullyrtir um trúleysingja.

Það er ekki rétt að trúleysingjar telji að hugsun mannsins „sé upphaf og endir alls“ og því síður að hún „mið[ist] við einhvers konar yfirburði mannlegrar vitundar“.  Í fyrsta lagi telja þeir (almenna viðhorfið í dag) að það sé ótal margt annað sem ákvarði upphaf og endi hlutanna og að manneskjan megi sín lítils miðað við öfl náttúrunnar. Í öðru lagi liggur engin yfirburðarmennska á bak við þá skoðun trúleysingja að það sé enginn æðri máttur. „Yfirburði“ miðað við hvað þá, Þorbjörn? við Guð? Ætlastu til að trúlaust fólk miði þá vitsmuni sína, við vitsmuni einhverrar óskynjanlegrar veru? Til hvers ættu menn að gera það yfir höfuð? Skoðun byggir á þeim rökum og rannsóknum sem eru færð til að styðja hana, en ekki hvort að sá sem hefur skoðunina sé á einhverju (háu) vitsmunalegu plani miðað við eitthvað annað. Með þessu ertu að tala um flytjandann en ekki málið sjálft; rökvilla.

Síðan gefur þú þér forsendur sem standast ekki:  „Ef menn gefa sér í þágu efans að æðri máttur sé til þá á hann sér eflaust rætur í lögmálum sem nútímavísindin geta ekki útskýrt. Það má ímynda sér að þessi óáþreifanlegi æðri máttur sé með okkur öllum stundum, alla sólarhringa ársins en á sama tíma er hann svo fjarlægur.“  Við þetta bætir þú líkingarrökum úr heimi vísindanna á þá vegu að þar sé „sumt, sem er viðurkennt í vísindum okkar daga, svo flókið og langsótt að það er næstum ómögulegt að útskýra það. Hér má nefna skammtaeðlisfræði.“

Í fyrsta lagi færirðu engin rök fyrir tilvist æðri máttar, en gefur þér það sem gefna staðreynd til að skoða málið „í þágu efans“ og að það megi „ímynda sér“.  Allt í lagi, stundum má hefja umræðu með einhverju ímynduðu, en hvað hefurðu svo fram að færa því til stuðnings? Ekkert.  Þú gefur þér aðra risastóra forsendu; að það séu „lögmál“ sem standi æðri mætti að baki.  Síðan vísar þú í hina torskildu skammtaeðlisfræði, þar sem hún sé langsótt og torskilin, að þá geti æðri máttur verið til þar sem hann torskilinn líka.  Vísindin hafi bara ekki fundið út úr því. Þetta eru ekki rök heldur líking og hringrök. Eitthvað torskilið úr hugarheimi fólks verður ekki að lögmáli þó að vísindakenning eins og skammtafræðin sé torskilin. 

Í öðru lagi færir þú ekki fram neina skilgreiningu á því hvað „æðri máttur“ sé, annað en það sem Steve Jobs sagði að hann væri „sama hús“ hinna mörgu dyra ólíkra trúarbragða.  Þú ert þar að vísa í samnefnara, sem á það sameiginlegt að vera „æðri máttur“ í ótal myndum, en nefnir ekki að sameiginlegt þeim öllum er að manneskjan hefur búið alla þessa æðri mætti til.  Einnig er þeim sameiginlegt að vera oft með ofurmannlegan mátt og vitsmuni.  Hverjir eru þá að þykjast vera með „yfirburði“? Allir þessir þúsundir guða gegna ákveðnum hlutverkum til að fylla upp í „tóm“ mannlegrar getu eða þekkingar.  Eftir því sem vísindin hafa þróast hafa þessi tóm fyllst upp með raunverulegri þekkingu, eins og t.d. jarðvísindin um tilurð og þróun jarðarinnar og lífvísindi um þróun lífs.  Heimspeki hefur komið í stað boðorða og yfirskilvitlegra útskýringa á mannlegu eðli.

Síðan gefurðu þér að það sé hlutverk komandi kynslóða að „beisla vísindaþekkingu sem getur útskýrt þennan æðri mátt [...].“ Það er búið að afgreiða þessa spurningu.  Æðri máttur er bara til í huga þeirra sem trúa á slíkt, rétt eins og álfar eru í huga álfatrúarfólks.  Öll gögn benda til þess og eins og Sören Kierkegaard sagði, þá er trú einfaldlega „stökk“ til að trúa á þverstæðu.  Sumir, líkt og hann, kjósa að trúa á þversögnina, en því verður ekki þröngvað upp á vísindalega aðferð og hugsun. 

Svo ferðu í hringrök þegar þú segir að það sé „heilbrigð afstaða“ að horfa til þessa sameiginlega húss og að trúarbrögðin „séu aðferð til að rækta sambandið við þennan æðri mátt.“  Þú ert ekki búinn að sýna fram á tilvist æðri máttar.  Þú bara gafst þér tilvist æðri máttar í nafni efans og velviljaðrar ímyndunar, líktir við flókin vísindi, sem í framtíðinni myndu útskýra hann og að sambandið við hann væri heilbrigt og "tilvistarleysi hans of dapurleg".  Forsendur þínar byggja bar á ósk og niðurstaðan er í samræmi við það. Sem dæmi vildi ég að Hobittar væru ofurmannlegar verur visku sem gætu leiðbeint mér í lífinu hvenær sem eitthvað bjátar á, en væri ekki of langt seilst að telja að vísindi Niels Bohr geti komið mér til hjálpar? Ég fyllist depurð yfir því að Hobbitar eru bara skáldsagnarpersónur en ... þú veist – þeir eru ekki til og líf mitt þarf að taka mið af því.

Svo varðandi þjóðkirkjuskipanina.  Það þarf bæði lagabreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu til að leggja hana niður. Það er friður um lífsskoðunarmál á Íslandi en samt deilur á hverju ári, því að jafnræðisreglan er brotin.  Þó að það sé „blessunarlega“ ekki stríð, þýðir það ekki að málin séu í lagi. Það myndi ekki kosta ríkið neitt að ógilda jarðasamninginn frá 1997 því að ríkið er búið að greiða andvirði jarðanna margfalt. Þú nefnir „brýnni mál“ en einmitt í ljósi brýnna mála eins og velferðarþjónustunnar er brýnt að endurskoða þjóðkirkjuákvæðið, því að heilbrigðiskerfið þarf þá nokkru milljarða sem árlega fara í að borga prestum laun.  Það er sár skortur á sálfræðiþjónustu, ekki síst fyrir börn. Það er mun brýnna að koma sálfræðiþjónustu inn í kerfið en að halda uppi prestum, sem eiga að fá laun sín beint frá söfnuðum sínum, hafi þeir virkilegan áhuga á því.

Hvorki trú á æðri mátt né þjókirkjuskipan verða réttmætt með vísan í vísindi eða siðferði. Hvorugt er hægt að rökstyðja þannig að sanngildi fáist í niðurstöðuna.  Það strandar á þversögnum sem aðeins vald og hefðir krefjast af okkur að viðhalda. Óháð sanngildi trúar á æðri mátt geta trúarsamfélög haft gildi fyrir meðlimi þeirra, en það er ekki ríkis að viðhalda þeim, heldur þeirra sjálfra í perónulegri trúariðkun sinni.  Það er ríkisins að halda uppi samfélagsverðmætum eins og heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngukerfi og öðrum sameiginlegum innviðum þjóðfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×