Fótbolti

Níu stuðningsmenn á fyrsta fundi Heimis með Tólfunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson gerir upp magnað ár íslenska landsliðsins í sérstökum viðtalsþætti Harðar Magnússonar, Þegar Höddi hitti Heimi, á öðrum degi jóla. Þátturinn verður sýndur klukkan 20.00 á Stöð 2 Sport.

Heimir kemur víða við í viðtalinu en hér fyrir ofan má sjá bút úr því, þar sem hann ræðir um samband sitt við Tólfuna, stuðningsmannahóp íslenska landsliðsins, sem hann hittir fyrir hvern einasta heimaleik.

„Það var alltaf í mínum huga að reyna að bæta þá umfjöllun sem landsliðið fékk, sem hafði ekki verið sérstök, og bæta ímynd KSÍ og karlalandsliðsins,“ sagði Heimir í viðtalinu um tildrög þess að hann ákvað að byrja að hitta Tólfumenn.

„Mér fannst þetta því tilvalið. Fyrir fyrsta leikinn, gegn Færeyjum, hafði ég samband við þá sem voru að endurræsa Tólfuna og sagði að ég myndi mæta.“

Hann segir að það hafi ekki verið margir á fyrsta töflufundi hans með Tólfunni.

„Ætli það hafi ekki verið um níu manns. Þrjár konur og 5-6 karlar. Við vorum í litlu herbergi og þar var ég með töflufund og sagði þeim hvað ég ætlaði að fara að gera.“

„Það var upphafið að þessu og ég hef gert þetta allar götur síðan. Þetta er það sem gerir okkur svolítið öðruvísi en alla aðra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×