Enski boltinn

Firmino: Ég elska Liverpool og vil vera hér í mörg ár til viðbótar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roberto Firmino fagnar sigri í Merseyside-slagnum.
Roberto Firmino fagnar sigri í Merseyside-slagnum. vísir/getty
Roberto Firmino, framherji Liverpool, nýtur lífsins á Anfield og vill vera hluti af liðinu næstu árin. Hann er heldur betur búinn að aðlagast enska boltanum og raðar nú inn mörkunum.

Brassinn var keyptur fyrir 29 milljónir punda frá Hoffenheim fyrir ári síðan en það tók hann smá tíma að komast í takt við enska boltann. Það gerði hann undir stjórn Jürgens Klopps.

Eftir að Þjóðverjinn tók við Liverpool er Firmino búinn að skora 17 mörk en hann skoraði ekki eitt undir stjórn Brendans Rodgers.

„Ef ég á að vera heiðarlegur þá elska ég að vera hérna og stefni á að vera hér í mörg ár til viðbótar. Enska úrvalsdeildin er erfið og lætur reyna á mann í hverjum leik,“ segir Firmino í viðtali við tímaritið Inside Liverpool.

„Ég þurfti að breyta leikstíl mínum eftir að ég kom til Englands. Ég var búinn að aðlagast evrópskum fótbolta eftir að spila í Þýskalandi í þrjú ár en enski boltinn er frábrugðinn þýsku deildinni.“

„Það sjá allir að enska úrvalsdeildin er mun hraðari og maður þarf að aðlgast því. Þetta er samt fótbolti sem ég hef gaman af,“ segir Roberto Firmino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×