Erlent

Grunaður um að hafa drepið mæðgin í Kirkenes

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Kirkenes.
Frá Kirkenes. Vísir/Getty
Tólf ára drengur og móðir hans fundust myrt í íbúð í Kirkenes í Norður-Noregi í morgun. Lögregla hefur stjúpföður drengsins grunaðan um morðin, en sá liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi í Tromsö.

Lögregla í Finnmörku staðfesti í morgun að 37 ára kona og tólf ára sonur hennar hafi fallið í skotárásinni. Eiginmaður konunnar og stjúpfaðir drengsins er grunaður um verknaðinn og hefur verið handtekinn.

Torstein Pettersen, talsmaður lögreglunnar, segir að skotvopn hafi fundist í íbúðinni sem um ræðir. „Við höfum handtekið mann vegna málsins og liggur hann inni á Háskólasjúkrahúsinu í Tromsö. Maðurinn er alvarlega særður, en ástand hans er stöðugt og er hann ekki í lífshættu.“

Hann segir ekki hægt að útiloka að fleiri hafi verið í íbúðinni þó að nú sé ekkert sem bendi til þess.

Í frétt Verdens Gang er haft eftir Hans Møllebakken, lögreglustjóra í Kirkenes, að konan hafi átt fjölbura sem bjuggu í íbúðinni. Hann segir að um erlenda ríkisborgara sé að ræða og sé enn verið að hafa uppi á nánustu ættingjum.

Lögreglu barst tilkynning um hávært rifrildi í íbúðinni klukkan 4:13 að staðartíma og fundust maðurinn, konan og drengurinn með skotsár þegar lögregla mætti á staðinn.

Tove Korsnes, rektor barnaskólans í Kirkenes, staðfestir að drengurinn hafi stundað nám við skólann. Hafi kennarar við skólann upplýst aðra nemendur um málið í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×