Erlent

Tyrkir: Vopnahlé yfirvofandi í Sýrlandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tyrkir segja að áætlanir séu tilbúnar til að tryggja vopnahlé í Sýrlandi.
Tyrkir segja að áætlanir séu tilbúnar til að tryggja vopnahlé í Sýrlandi. Vísir/AFP
Tyrkir og Rússar hafa sammælst um aðgerðaráætlun um vopnahlé í Sýrlandi og vonast er til að vopnahléið geti orðið að veruleika á miðnætti í kvöld að staðartíma. Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu upplýsti um þetta í dag. Reuters greinir frá.

„Það eru tvö skjöl tilbúin sem innihalda áætlanir til þess að ljúka átökunum í Sýrlandi. Eitt skjalið inniheldur lausnina á þeirri stjórnmálakreppu sem ríkir í landinu og hitt skjalið inniheldur áætlun um að ljúka átökunum“ sagði utanríkisráðherrann sem sagðist telja að hægt væri að hrinda áætlunum í framkvæmd hvenær sem er.

Óljóst er nákvæmlega hvað felst í áætlunum en vopnahléssamningar munu að sögn Tyrkja ekki ná til yfirlýstra hryðjuverkasamtaka sem barist hafa við stjórnarliða í landinu heldur einungis til hópa sem flokka má undir stjórnarandstöðu.

Sýrlandi mögulega skipt upp í óformleg áhrifasvæði

Rússar hafa neitað að tjá sig um orð tyrkneska utanríkisráðherrans en heimildir herma að lausnin sem um ræðir gæti falist í því að skipta Sýrlandi upp í óformleg áhrifasvæði milli Rússlands, Tyrklands og Írans en að Assad verði gert kleyft að verða forseti, að minnsta kosti næstu árin.

Vonast er til þess að hægt verði að ná leiðtogum uppreisnarhópa og stjórnarinnar saman til að ræða útfærslur á endalokum borgarastyrjaldarinnar og framtíð Sýrlands eftir átökin í Astana, höfuðborg Kasakstan undir forrustu Írana og Rússa.

Að sögn rússneskra yfirvalda hefur ekki verið ákveðið hvenær verður boðið til viðræðna í Astana en Bandaríkjunum verður ekki gert kleyft að taka þátt í viðræðunum og ætla Rússar sér að halda viðræðunum utan regluverki Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×