Fótbolti

Verón tekur skóna af hillunni á fimmtugsaldri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Verón er í guðatölu hjá Estudiantes.
Verón er í guðatölu hjá Estudiantes. vísir/getty
Argentínumaðurinn Juan Sebastián Verón hefur tekið skóna af hillunni og samið við Estudiantes í heimalandinu. Hann er 41 árs gamall.

Verón lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum eftir langan og farsælan feril og gerðist stjórnarformaður Estudiantes.

Hann hét því hins vegar að byrja aftur ef stuðningsmenn Estudiantes keyptu 65% af sætum á nýjum heimavelli félagsins og hefur nú efnt það loforð.

Verón skrifaði undir eins og hálfs árs samning við Estudiantes. Verón þiggur ekki laun fyrir að spila heldur renna þau til félagsins.

Fyrsti leikur Veróns með Estudiantes verður gegn Bayer Leverkusen í Florida Cup 8. janúar.

Verón hóf ferilinn með Estudiantes og gekk svo aftur til liðs við uppeldisfélagið 2006. Hann vann þrjá titla með því áður en skórnir fóru á hilluna.

Verón lék um 10 ára skeið í Evrópu, með Sampdoria, Parma, Lazio og Inter á Ítalíu og Manchester United og Chelsea á Englandi. Þá lék hann 73 landsleiki og skoraði níu mörk fyrir argentínska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×