„Einnig er orðið ljóst hverjir berjast gegn hryðjuverkamönnunum af heiðarleika og hverjir hjálpa þeim og nota í eigin þágu,“ sagði Lavrov á árlegum blaðamannafundi þar sem hann fer yfir helstu fregnir síðasta árs.
Hafa ber í huga að Rússar hafa hingað til gert lítinn greinarmun á hryðjuverkahópum eins og Íslamska ríkinu og deild al-Qaeda í Sýrlandi annars vegar og uppreisnarhópum eins og Free Syrian Army hins vegar. Flestar loftárásir þeirra hafa beinst gegn uppreisnarhópum í norðvesturhluta landsins.
Stjórnarherinn sækir fram
Frá því um áramótin hefur stjórnarherinn sótt fram í Latakia-héraði og halda uppreisnarmenn einungis einu þorpi þar. Herinn er þó sagður undirbúa sókn gegn þorpinu sem heitir Kinsiba.
Í síðustu viku gerðu Rússar þó fjölda loftárása nærri borginni Deir ez-Zur sem er eitt af fáum vígum stjórnarhersins í austurhluta landsins. Vígamenn Íslamska ríkisins hafa setið um borgina um langt skeið. Samkvæmt eftirlitsaðilum gerði ISIS þó árás á borgina í skjóli sandstorms í síðustu viku. Þá komust flugvélar Rússa ekki á loft.
ISIS hertóku tvö þorp við borgina og nokkrar stöðvar hersins í árásinni og eru sagðir skipuleggja aðra árás á borgina.
Hægt er að skoða uppfært kort af ástandinu í Sýrlandi og nýjustu vendingum hér.