Erlent

Móðir „górilludrengsins“ verður ekki ákærð

Samúel Karl Ólason skrifar
Blóm hafa verið skilin eftir við styttu af górilli við dýragarðinn í Cincinnati.
Blóm hafa verið skilin eftir við styttu af górilli við dýragarðinn í Cincinnati. Vísir/Getty
Móðir þriggja ára drengs sem datt ofan í górillugrifju í dýragarði í Cincinnati í síðustu viku verður ekki ákærð. Starfsmenn dýragarðsins neyddust til þess að skjóta 17 ára górillu til bana til að vernda drenginn. Saksóknarar komust að þeirri niðurstöðu að móðir drengsins hefði ekki sýnt glæpsamlegt vanhæfi þegar drengurinn féll ofan í gryfjuna.

Fjölskyldan hefur verið gagnrýnd harðlega og hafa þeim jafnvel borist hótanir vegna atviksins.

Sjá einnig: Mikil reiði eftir að górilla var skotin til bana í gryfju í dýragarði

Í tilkynningu frá embætti saksóknara á svæðinu segir að móðirin hafi alls verið með fjögur börn í dýragarðinum og að hún hafi veitt þeim fulla athygli. Drengurinn hljóp á brott, skreið í gegnum girðingu og féll 4,5 metra ofan í gryfjuna.

„Allir foreldrar sem eru heiðarlegir við sjálfa sig, skilja hvernig þetta getur gerst,“ sagði Joseph Deters. „Ef hún hefði verið inn á klósetti að reykja krakk og að krakkarnir hefðu verið á hlaupum um dýragarðinn hefðum við tekið aðra ákvörðun.“

Nornaveiðar

Hundruð þúsund hafa skrifað undir áskorun á netinu þar sem móðirin er fordæmd fyrir að hafa óbeint leitt til dauða górillunnar Harambe. AFP fréttaveitan segir að viðbrögðunum við dauða górillunnar hafi verið lýst sem nornaveiðum gegn móðurinni.

„Dýragarðuinn missti fallegt dýr, sem margir íbúar svæðisins hafa horft á um árabil. En þrátt fyrir það var þetta bara dýr. Það er ekki sambærilegt við líf ungs drengs,“ sagði Deters.

Í tilkynningu frá fjölskyldunni segir að þau hafi búist við þessari niðurstöðu og þakkar fjölskyldan veittan stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×