Skoðun

Byggðaþróun á suðvesturhorninu

Gestur Ólafsson skrifar
Fyrir tæpum 30 árum bentu ég og samstarfsmenn mínir á að hagkvæmast væri að þróa byggð á Höfuðborgarsvæðinu út Reykjanes, í átt til Keflavíkur, ef horft væri til okkar sameiginlegu pyngju. Auðvitað ætti líka að skipuleggja þetta svæði í aðalatriðum í heild, til þess að tryggja að möguleikar þess fyrir almenna byggðaþróun væru ekki eyðilagðir. Sú hætta væri til staðar að þeir aðilar sem hefðu með hendi t.d. línu- og vegarlagnir hugsuðu bara um sína þröngu hagsmuni og eyðilegðu þannig að verulegu leyti þá stórkostlegu möguleika sem þetta svæði hefur til að bera. Þarna væri auðvelt að bjóða upp á hagkvæma íbúðarbyggð í góðum tengslum við samgöngur, útivistarsvæði og sjó og auk þess mætti flytja þangað fyrirtæki og geymslurými frá núverandi byggð á Höfuðborgarsvæðinu, sem verið væri að þétta.

Ekki fékk þessi ábending þá mörg atkvæði, en full ástæða er samt til að rifja þetta upp í ljósi dagsins í dag og ekki síst ef einhver alvara er í því að byggja upp lestarsamgöngur á þessu svæði. Stjórnmálamenn ættu hugsanlega líka að hafa í huga að þrátt fyrir allt þá eru ákveðin öfl að verki á þessu svæði sem teygja byggð út Reykjanes og m.a. réðu því að IKEA flutti úr Reykjavík í Garðabæ, höfuðstöðvar Íslandsbanka eru fluttar í Kópavog og COSTCO vill vera í Garðabæ.

Við eigum þess auðvitað kost að auðvelda eða torvelda þessa þróun, en ef við viljum stuðla að betri nýtingu á takmörkuðu fjármagni, meiri skilvirkni í ákvarðanatöku og meiri framleiðni ættum við kannski að skoða þessi mál af meiri alvöru en hingað til.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Línubyggð



Skoðun

Sjá meira


×