Viðskipti innlent

Fall Deutsche hefði lítil áhrif á Íslandi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Markaðsvirði Deutsche Bank hefur lækkað um helming það sem af er ári.
Markaðsvirði Deutsche Bank hefur lækkað um helming það sem af er ári. NordicPhotos/Getty
Ef allt fer á versta veg hjá þýska bankarisanum Deutsche Bank og bankinn fer á hausinn mun það líklega hafa lítil efnahagsleg áhrif á Íslandi, en einhver markaðsáhrif. Þetta er mat Guðjóns Á. Guðjónsson, forstöðumaður hlutabréfateymis Stefnis.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá er mikil óvissa í kringum framtíð Deutsche Bank. Gengi hlutabréfa í bankanum hafa lækkað um helming á árinu, í fyrstu vegna þess að fjárfestar óttuðust eiginfjárstöðu bankans og að bankinn væri of tengdur orkufyrirtækjum. En síðustu tvær vikur hefur ástæða lækkunar verið 14 milljarða dollara, 1.600 milljarða króna, sekt bandarískra stjórnvalda á hendur bankans.

Þrátt fyrir ágætis efnahagsreikning gæti bankinn staðið frammi fyrir hruni vegna áhlaupa, til að mynda ef fjárfestar færa viðskipti sín annað, eins og nokkrir vogunarsjóðir hafa nú þegar gert, eða ef hann getur ekki greitt sektina sem er ansi nálægt markaðsvirði fyrirtækisins, sem nam 18 milljörðum dollara fyrir viku.

„Það er langt í að hrun gerist eins og staðan er í dag, en ef það mun gerast þá mun evran gefa eitthvað eftir. Ef Deutsche Bank fer á hausinn þá verður tiringur á mörkuðum sem mun smita hingað heim. Það mun hafa einhver áhrif á markaði hér en ég held það muni ekki hafa nein ofboðsleg efnahagsleg áhrif á Íslandi,“ segir Guðjón. „Auk þess myndi seðlabankinn í Evrópu, og þýska ríkið, mjög líklega hlaupa undir bagga ríkið áður en að þessu kæmi.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×