Skoðun

Aldraðir þjóðfélagsþegnar

Hanna Lára Steinsson skrifar
Í Fréttablaðinu þann 8. júní síðastliðinn birtist grein undir yfirskriftinni: „Um níutíu eldri borgarar fastir á spítala.“ Um er að ræða aldrað fólk sem hefur lokið meðferð á spítala, getur ekki búið lengur heima og er að bíða eftir vistun á hjúkrunarheimili.

Við lestur greinarinnar fylltist ég depurð vegna þess að þetta ástand hefur verið við lýði áratugum saman. Árið 1998 skrifaði ég grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni: „Hver vill vera á biðlista?“ Þá voru 98 aldraðir fastir á spítala.

Það hefur aldrei skipt máli hvort það sé góðæri, uppgangur, þensla, hrun eða kreppa í þessu þjóðfélagi, aldraðir þjóðfélagsþegnar hafa alltaf mætt afgangi og stefna stjórnvalda hefur einkennst af því að slökkva elda og setja plástra þar sem neyðin er mest á hverjum tíma.

Öldrunarþjónustan hér á landi er svipuð og hún var á Norðurlöndunum á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma varð umræðan um aldurs­pýramídann mikil því þá þegar var ljóst að hlutfall aldraðra myndi aukast mjög hratt næstu áratugina á eftir.

Vinna stöðugt að bættri þjónustu

Því hafa Norðurlandaþjóðirnar unnið eftir tíu ára áætlunum frá þeim tíma og hafa stöðugt unnið að því að bæta alla þjónustu fyrir aldraða. Þar deila ekki aldraðir herbergi á stofnunum, þeir fá ekki vasapeninga heldur greiða leigu og þeir bíða ekki lengi á spítala eftir hjúkrunarrými því sveitarfélögin þurfa að greiða dagsektir ef þau útvega ekki pláss eftir ákveðinn tíma. Að auki getur starfsfólk í öldrunarþjónustu sótt í sjóði til þess að prófa ný úrræði og koma hugmyndum í framkvæmd.

Það er með ólíkindum að við skulum hjakka í sömu hjólförunum áratug eftir áratug. Sennilega verður engin breyting fyrr en við fáum heilbrigðisráðherra sem er kominn á þetta æviskeið og ég sting upp á ákveðnum forsetaframbjóðanda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. júní 2016




Skoðun

Sjá meira


×