Skoðun

Ásökun um að gera verk annars að sínu - Látum myndir tala

Árni Björn Jónasson skrifar
Greinar hafa birst í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu eftir Magnús Rannver Rafnsson þar sem settar eru fram ásakanir á undirritaðan. Í greinunum er reynt að gera persónu mína og annarra tortryggilega með aðdróttunum um óeðlileg tengsl. Einnig telur höfundur sig eiga lögvarinn rétt á útliti á mastri sem er til um gjörvallan heim og er í engu líkt mastri sem ég hef hannað.

Magnús Rannver segir í grein Fréttablaðinu, sem svar við skrifum mínum, um að hann geri ekki greinarmun á stöguðum möstrum úr rörum eða stöngum né frístandandi möstrum. „Þetta snýst einmitt ekki um tæknileg atriði“ skrifar hann. Það eru alveg ný sannindi að burðarvirki snúist ekki um tæknileg atriði.

Ef við snúum okkur að útliti mastranna, sem virðist vera grundvöllur ásakana Magnúsar, segja myndir meira en mörg orð. Er eitthvað líkt með mastri ARA Engineering (til vinstri) og mastri Línudans (til hægri) á mynd 1. Það er nákvæmlega ekkert eins með þessum möstrum. Mastur Línudans er stagað og stögin taka töluvert pláss utan mastursins. Upphengi leiðara er gjörólíkt.

Síðari myndin þar sem mastur Línudans er til vinstri og möstur víða að í heiminum hægra megin við það. Ekkert er nýtt hjá Línudansi nema að einangrar eru jafnarma og grannir sem gerist ekki í raunveruleikanum sem skiptir kannski ekki máli því „Þetta mál snýst einmitt ekki um tæknileg atriði“ eins og Magnús Rannver skrifar. Snýst það þá um óskhyggju? Eins og sjá má á samanburði á mastri Magnúsar við önnur möstur sem hönnuð hafa verið í þessum tilgangi er hann ekki að finna upp hjólið hvað útlit varðar (sjá mynd 2).

Mynd 2. Mastur Línudans til vinstri og möstur víða að úr heiminum hægra megin við það.
Öll þessi möstur hér að framan hafa sama markmið; að minnka útlitsáhrif og fella mannvirkin inn í umhverfið. Línudans hefur sótt um skráningu á formi mastursins að ofan árið 2012 en það form er líka í tillögu M. Sagasta Garcia í samkeppni Landsnets frá 2008 og Kraft-værk Arkitekter í samkeppni Statnett frá 2010. Hér er því um form að ræða sem margir nota.

Aðdróttanir um hugverkastuld ARA Engineering eiga sér aftur á móti enga stoð í raunveruleikanum, eins og rakið er hér að framan.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×