Innlent

Brotnaði á báðum fótum og höndum: „Ég læri það allavega að ég get ekki flogið“

Hulda Hólmkelsdóttir og Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifa
„Förum aldrei upp í stiga nema einhver styðji við hann hjá okkur,“ segir Hjördís Guðlaugsdóttir á Selfossi. Ástæðan er sú að hún liggur nú á sjúkrahúsi eftir að hafa fallið úr stiga á heimili sínu og brotnað á báðum höndum og báðum fótum.

Hjördís var að fara upp á háaloft inni í bílskúr heima hjá sér fyrir rúmlega viku síðan. Stiginn sem hún notaði rann undan henni sem varð til þess að hún féll á steypt bílskúrsgólfið og braut báða úlnliðina og hnéskeljarnar á báðum fótum.

„Hún var uppi í stiga og hún var samt ekki að sækja jóladótið. Hún var að sækja gömul föt held ég, til að gefa,“ segir Guðlaugur Tristan Guðmundsson, sonur Hjördísar.

„Maður er algjörlega sleginn út úr lífinu. Bara algjörlega. Og getur ekki einu sinni matað sig sjálfur,“ segir Hjördís í samtali við fréttastofu. Hjördís segist hafa verið heppin að hafa ekki brotið á sér bakið eða höfuðið við fallið.

Var þessi stigi lélegur eða var allt í lagi með hann?

„Það var allt í lagi með hann og það skilur enginn af hverju hann rann, því hann á ekki að geta runnið ef hann er skorðaður. En hann rann. Þannig að þó að það eigi að vera góður stigi þá er vissara að enginn styðji við,“ segir Hjördís.

Er eitthvað sem þú lærir af þessu?

„Ekki klifra upp í stiga aftur,“ segir Hjördís og hlær. „Ég læri það allavega að ég get ekki flogið.“

Hjördís segist jafnframt að mikilvægt sé að einhver haldi við stigann þegar maður er að klifra, og að einhver sé heima. Hún segist eiga góða að sem hjálpa til heima fyrir, þá hafi hún góðan herbergisfélaga með sér á sjúkrahúsinu sem skiptir miklu máli. Næstu vikur og mánuðir fari í að jafna sig eftir brotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×