Enski boltinn

Jóhann Berg fékk dæmt á sig víti í tapi Burnley | Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Burnley-menn bíða enn eftir fyrsta stigi sínu á útivelli á tímabilinu en nýliðarnir töpuðu 3-1 á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Southampton-liðið fékk aðeins tvö stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum en er nú komið á skrið. Southampton hefur fengið 10 stig af 12 mögulegum í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og fékk dæmda á sig vítaspyrnu á 66. mínútu. Jóhann Berg var tekinn af velli aðeins fjórum mínútum síðar.

Það var strangur dómur að dæma á Jóhann Berg sem átti að hafa farið aftan í varamanninn Sam McQueen. Charlie Austin skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og kom Southampton í 3-0.

Southampton skoraði öll þrjú mörkin sín á fjórtán mínútna kafla frá 52. til 66. mínútu en Austin skoraði tvö þeirra.

Charlie Austin skoraði það fyrsta af stuttu færi á 52. mínútu og Nathan Redmond bætti við öðru átta mínútum síðar. Vítið kom síðan á 66. mínútu en Sam Vokes minnkaði muninn úr víti á 72. mínútu.

Charlie Austin hefur nú skorað fjögur mörk í síðustu fjórum deildarleikjum sínum og Southampton hefur unnið þrjá þeirra og ekki tapað neinum.

Burnley hefur tapað öllum þremur útileikjum sínum á leiktíðinni og markatalan í þeim er -8 (1-9). Öll sjö stig Burnley-liðsins hafa komið í hús á heimavelli.

Southampton komst upp í áttunda sæti með þessum sigri en Burnley er í 14. sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×