Erlent

Bóksali sem hvarf segir Kínverja hafa handtekið sig og knúið fram falska játningu

Bjarki Ármannsson skrifar
Á blaðamannafundi fyrr í vikunni segist Lam hafa ákveðið að greina frá handtökunni, yfirheyrslunum og fölsku játningunni þar sem hann sé sá eini af fimmmenningunum sem á enga ættingja á meginlandi Kína.
Á blaðamannafundi fyrr í vikunni segist Lam hafa ákveðið að greina frá handtökunni, yfirheyrslunum og fölsku játningunni þar sem hann sé sá eini af fimmmenningunum sem á enga ættingja á meginlandi Kína. Vísir/EPA
Lam Víng-Kí, einn fimm bókasala í Hong Kong sem hurfu sporlaust í fyrra, segir að játning sem hann fór með í kínversku sjónvarpi í febrúar síðastliðnum hafi verið fölsk og knúin fram af kínverskum yfirvöldum.

Lam starfaði ásamt hinum mönnunum fjórum hjá bókaútgáfu sem seldi bækur sem gagnrýna leiðtoga Kína. Þeir hurfu allir síðla árs í fyrra og eins þeirra er enn saknað. Hinir fjórir komu fram í kínversku sjónvarpi í febrúar og játuðu þar að hafa staðið í ólöglegum viðskiptum sem hafi leitt til handtöku þeirra.

Lam segir hins vegar nú að hann hafi verið handtekinn, látinn skrifa undir plagg þar sem hann samþykkti að hafa ekki samband við lögfræðing eða fjölskyldu sína og svo látinn fara með fyrirfram skrifaða játningu í sjónvarpinu.

Hann segir málið snúast um sölu á bókum sem eru kínverskum stjórnvöldum ekki að skapi. Hann hafi meðal annars verið beðinn um að nafngreina þá sem keypt hafi bækurnar af honum við yfirheyrslur en neitað.

Á blaðamannafundi fyrr í vikunni segist Lam hafa ákveðið að greina frá handtökunni, yfirheyrslunum og fölsku játningunni þar sem hann sé sá eini af fimmmenningunum sem á enga ættingja á meginlandi Kína.   

„Ef ég þegi yfir þessu, þá á Hong Kong sér enga von,“ sagði Lam meðal annars á fundinum. 

Samkvæmt lögum í Hong Kong, sem áður tilheyrði breska konungsveldinu, hefur kínversk lögregla ekkert vald í borginni. Mál Lam og félaga hefur vakið athygli annarra ríkja, sem óttast að Kínversk stjórnvöld reyni að hefta tjáningarfrelsi í Hong Kong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×