Innlent

Fimm banaslys í umferðinni á sex vikum

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fimm banaslys hafa orðið í umferðinni á síðustu sex vikum. Rannsóknastjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir þetta vera mikinn fjölda á stuttum tíma og að fjöldi alvarlegra umferðarslysa á þessu ári sé vonbrigði.

Undanfarin ár hefur banaslysum í umferðinni farið fækkandi en þeim fjölgaði þó í fyrra og voru þá 16 talsins. Undanfarnar vikur hafa orðið óvenju mörg banaslys en á síðustu sex vikum hafa fimm látist í umferðinni.

„Þetta er mjög mikið á stuttum tíma. Í fyrra voru 16 banaslys í umferðinni en árið þar áður voru þau fjögur. Og þá höfðu verið ár þar sem að voru ekki svona mörg, bæði alvarleg umferðarslys og banaslys, þannig að þessi aukning er að koma okkur svolítið á óvart, það verður að segjast eins og er og veldur okkur vonbrigðum,” segir Ágúst Mogensen, rannsóknastjóri umferðarsviðs hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Aukning í alvarlegum slysum sem rekja má til erlendra ferðamanna

Um áhrif erlendra ferðamanna segir Ágúst að í fyrra voru fimm banaslys sem erlendir ferðamenn áttu aðild að. Hefur þessi mikla fjölgun erlendra ferðamanna haft áhrif á umferðaröryggi?

„Við náttúrulega sjáum það í tölunum. Það er aukning í alvarlegum umferðarslysum sem að má rekja beinlínis til erlendra ferðamanna.”

Lítur ekki nógu vel út

Árið 2014 létust fjórir í umferðinni en þeim fjölgaði í 16 í fyrra sem fyrr segir. Það sem af er ári hafa átta banaslys orðið í umferðinni. Hvernig lítur þetta út með árið í ár?

„Ef við miðum við undanfarin fimm, sex ár að þá bæði í fyrra og það sem af er þessu ári að þá verður að segjast eins og er að þetta er mun verri niðurstaða og lítur ekki nógu vel út, verð ég að segja hreint út.”

Hægt að fækka umferðarslysum til muna

Hvað er mikilvægast að ykkar mati til að fækka alvarlegum umferðarslysum?

„Við höfum lagt áherslu á hraðakstur, bílbeltanotkun, að fólk neyti ekki örvandi lyfja eða áfengis og síðan svefn og þreytu. Þetta eru svona fjórir, fimm helstu þættirnir sem að við leggjum áherslu á. Og ef fólk myndi virða þessar reglur og fara eftir í hvívetna að þá gætum við fækkað alvarlegum umferðarslysum og banaslysum til muna,” segir Ágúst.


Tengdar fréttir

Banaslys á Reykjanesbraut

Karlmaður á fertugsaldri lést eftir árekstur vörubifreiðar með tengivagn og bifhjóls á mótum Reykjanesbrautar og Hafnarvegar í Reykjanesbæ í morgun.

Banaslys við beygju sem stóð til að banna

Banaslys varð á fimmtudag við vinstri beygju inn á Reykjanesbraut. Yfirvöld tilkynntu síðasta sumar að banna ætti beygjuna. Íbúi í Höfnum segir gatnamótin hafa verið til vandræða í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×