Lífið

Erum fyrst og fremst að gleðjast saman

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Feðginin Jóhanna Engilráð og Hrafn með taflmenn í stærra lagi sem tilheyra taflborðinu bakvið þau.
Feðginin Jóhanna Engilráð og Hrafn með taflmenn í stærra lagi sem tilheyra taflborðinu bakvið þau. Fréttablaðið/Eyþór
„Við erum að fagna góðum árangri að undanförnu og leggja drög að næstu verkefnum. Við erum fyrst og fremst að gleðjast, koma saman og bjóða alla velkomna að koma að kynna sér starfs Hróksins á Íslandi og í Grænlandi,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti skákfélagsins Hróksins. Hrókurinn býður til uppskeruhátíðar í dag. Þar verður tafl og tónlist, bókamarkaður, myndasýning frá Grænlandi og vöfflur á boðstólum. Linda Guðmundsdóttir frá Finnbogastöðum í Trékyllisvík mun leika á harmóníku, Valdimar Tómasson mun stýra bókamarkaði og skákmeistarar tefla við gesti og gangandi

Frá árinu 2003 hafa Hróksliðar farið í yfir 50 ferðir til Grænlands að útbreiða skák og vináttu. Þeir hafa einnig staðið fyrir fatasöfnun fyrir grænlensk börn og unglinga auk þess sem nýlega var farið að safna fötum fyrir heimilislausa í Nuuk. „Það var nýlega stofnað athvarf fyrir heimilislausa í Nuuk sem Íslendingurinn Guðmundur Þorsteinsson veitir forstöðu. Við heimsóttum það í maí og eignuðumst þar góða vini. Við sendum fyrstu sendinguna þangað í gær.“

Það er nóg um að vera hjá Hróknum og á hátíðinni verða komandi verkefni einnig kynnt. „Það er mikið fram undan af skákhátíðum og skemmtilegheitum víða á Grænlandi enda flýgur Flugfélag Íslands núna til fimm staða á Grænlandi. Flugfélagið hefur staðið við bakið á okkur frá upphafi,“ segir Hrafn. „Svo erum við líka bara að fagna þessum góða árangri og fara yfir verkefnin okkar hér heima. Verkefnin eru öll í anda slagorðs Hróksins og skákhreyfingarinnar: Við erum ein fjölskylda.“

Uppskeruhátíðin fer fram milli klukkan 14 og 16 í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×