Erlent

Einn látinn eftir hnífaárás í bæ nálægt München

Gunnar Reynir Valþórsson og Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifa
Lögregla kom á staðinn.
Lögregla kom á staðinn. Vísir/EPA
Einn er látinn og þrír eru alvarlega slasaðir eftir að hafa verið stungnir af manni á lestarstöð í bænum Grafing nálægt þýsku borginni München nú í morgun. RTE greinir frá.

Vitni herma að árásarmaðurinn hafi hrópað nafnið Allahu Akbar, eða Guð hinn stórfenglegi, áður en hann lét til skarar skríða. Lögregla rannsakar nú vettvang og hefur tekið vitni til yfirheyslu.

Einn hinna særðu er sagður í lífshættu.

Árásarmaðurinn var handsamaður af lögreglu í nágrenninu. Samkvæmt fjölmiðlum á meginlandinu er maðurinn ungur og hefur ekki áður komist í kast við lögin. Í samtali við Bild sagði vitni að lögregla hefði þurft að beita manninn hörku þegar hann streittist á móti handtöku. Angelika Obermayr, bæjarstjóri Grafing, sagði samkvæmt BBC að maðurinn væri þýskur ríkisborgari. Sá látni er karlmaður.

Gera má ráð fyrir töfum á lestarstöðinni í dag vegna rannsóknar á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×