Erlent

Sagðist ekki lengur hafa stuðning flokksfélaga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Werner Faymann hefur verið kanslari Austurríkis í nærri sjö og hálft ár.
Werner Faymann hefur verið kanslari Austurríkis í nærri sjö og hálft ár. Fréttablaðið/EPA
Werner Faymann kanslari hefur sagt af sér, hálfum mánuði eftir að Sósíaldemókrataflokkur hans galt afhroð í fyrri umferð forsetakosninga.

Faymann segist ekki lengur hafa stuðning flokksfélaga sinna: „Meirihlutinn dugar ekki,“ segir hann. „Þetta land þarf kanslara sem hefur flokkinn allan að baki sér.“

Flokkurinn segir að arftaki hans verði kynntur þjóðinni á þriðjudag í næstu viku. Formlega verði hann svo kosinn á flokksþingi þann 25. júní.

Mikil ólga hefur verið innan flokksins síðustu vikur og mánuði, bæði vegna kosninganna en einnig vegna þess að Faymann ákvað í mars að ekki yrði tekið við nema 80 umsóknum hælisleitenda á dag. Jafnframt var landamærunum að Slóveníu lokað, en þaðan hafði meginstraumur flóttafólks til Austurríkis komið.

Faymann hafði fram að því eindregið stutt stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara um að taka vel á móti öllu því flóttafólki, sem kæmi til Evrópulanda frá átakasvæðum í Mið-Austurlöndum og víðar.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, flutti ávarp á austurríska þinginu 28. apríl og gagnrýndi þar harðlega nýtekna ákvörðun þingsins um að loka landamærunum, að fyrirmynd Ungverjalands og fleiri landa í austanverðri Evrópu.

Fyrri umferð forsetakosninganna fór þannig, að Norbert Hofer, frambjóðandi Frelsisflokksins, hlaut 36 prósent atkvæða og Alexander Van der Bellen, frambjóðandi Græningja, fékk 20 prósent. Kosið verður á milli þeirra tveggja í seinni umferð kosninganna sunnudaginn 22. maí næstkomandi. Frambjóðandi sósíaldemókrata fékk aðeins 11 prósent atkvæða.

Frelsisflokkur Hofers er flokkur þjóðernissinna yst af hægri vængnum, sami flokkur og Jörg Haider var í forystu fyrir í hálfan annan áratug undir lok síðustu aldar. Flokkurinn hefur verið harðastur austurrískra flokka í andstöðu við útlendinga og flóttafólk.

Margir félagar Faymanns í Sósíaldemókrataflokknum segja hann hafa fært sig of langt í áttina að Frelsisflokknum.

Faymann hefur verið kanslari Austurríkis í nærri sjö og hálft ár, eða frá því í desember árið 2008.

Austurrískir fjölmiðlar segja Christian Kern líklegan arftaka Faymanns. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×