Erlent

Áfrýjunarréttur sýknar 275 í valdaránsmáli í Tyrklandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá mótmælunum við réttarhöldin.
Frá mótmælunum við réttarhöldin. Vísir/EPA
Æðsti áfrýjunarréttur í Tyrklandi hefur sýknað 275 manneskjur sem sakaðar voru um að leggja á ráðin um valdarán. Taldi rétturinn ákæruvaldið ekki hafa náð að sanna tilveru leynilegs hóps sem kallaður er Ergenekon.

Á meðal þeirra sem voru í hópnum sem var sýknaður eru háttsettir yfirmenn í tyrkneskan hernum, blaðamenn, lögmenn og fræðimenn. Þeir voru sakfelldir árið 2013 fyrir að leggja á ráðin um að reyna að steypa þáverandi forsætisráðherra landsins Recep Tayyip Erdogan af stóli.

Dómur áfrýjunarréttarins gæti leitt til þess að réttað verði í málinu að nýju.

Ergenekon-málið var eitt það stærsta í sögu Tyrklands en réttað var í því í Silivri, utan við Istanbúl, þar sem lögregla var með mikinn viðbúnað og beitti táragasi gegn mótmælendum.

Sautján úr hópnum voru dæmdir í fangelsisvist til lífstíðar og fengu margir aðrir þunga dóma.

Áfrýjunarrétturinn komst að þeirri niðurstöðu að  ágalli hafi verið á rannsókn málsins þar sem lögreglan gerði húsleitir og beitti hlerunum án dómsúrskurðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×