Viðskipti innlent

Neita þátttöku í verðkönnun ASÍ

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Verðlagseftirliti ASÍ var vísað frá dekkjaverkstæðum.
Verðlagseftirliti ASÍ var vísað frá dekkjaverkstæðum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Um helmingur dekkjaverkstæða neitaði þátttöku í könnun verðlagseftirlits ASÍ þegar gerð var tilraun til að kanna verð á dekkjaskiptum nú í byrjun apríl.

Á heimasíðu ASÍ segir að vísbendingar séu um að samráð hafi verið um að vísa fulltrúum verðlagseftirlitsins frá og neita þannig að upplýsa neytendur um verð á þjónustu sinni.

Bent er á að reynslan af verðkönnunum hjá dekkjaverkstæðum á undanförunum árum sýni að jafnaði mikinn verðmun á milli þjónustuaðila og full ástæða fyrir neytendur að bera saman verð.

„Að fyrirtæki velji að neita fulltrúum neytenda um að safna og birta þessar upplýsingar veldur verulegum vonbrigðum og vekur eðlilega spurningar um hvað slík fyrirtæki hafi að fela. Þá vakti athygli að á nokkrum hjólbarðaverkstæðum bar á hreinum og klárum dónaskap í garð verðtökufólks,“ segir í frétt á heimasíðunni.

Betra grip, N1, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Bílkó, Dekkjahúsið, Bifreiðaverkstæði SB, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Sólning, Nesdekk Grjóthálsi, KvikkFix og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels neituðu um aðgang að verði.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 21. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×