Menning

Heimþráin segir til sín í nýju verðlaunaljóði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Martyna Joanna og Oliwia hæstánægðar með viðurkenningarskjalið sem þær hlutu í ljóðasamkeppninni.
Martyna Joanna og Oliwia hæstánægðar með viðurkenningarskjalið sem þær hlutu í ljóðasamkeppninni. Mynd/Kópavogsbær
Heimþráin til Póllands er yrkisefni vinkvennanna sem bjuggu til ljóðið Ég sit á göngustígnum og unnu með því ljóðasamkeppni grunnskólanna í Kópavogi nýlega.

Þær heita Martyna Joanna og Oliwia og búa báðar með mæðrum sínum hér á Íslandi.

Martyna hefur búið hér á landi í fimm ár og Oliwia í átta en þær hafa heimsótt Pólland á þeim tíma.

„Ég fer á hverju ári til föður míns í Póllandi í sumarfríinu mínu,“ segir Oliwia.

Hún kveðst stundum setja saman ljóð þegar hún hefur ekkert annað að gera og skrifa þau niður á miða sem endi ofan í skúffu en skyldi hún yrkja á pólsku líka? „Nei, ég yrki ekki á pólsku, bara á íslensku og þýði svo ljóðin yfir á pólsku.“

Þær Oliwia og Martyna eru skólasystur í Álfhólsskóla og líkar þar vel en finnst þó ekki ólíklegt að þær flytji til Póllands í framtíðinni.

Ég sit á göngustígnum

Ég horfi á grasið og blómin í kringum mig.

Sólin skín á mig og á laufblöðin og trén.

Haustið kemur hratt, ég veit ekki hvenær sumarið fór.

Það eru blokkir, hvítar og bláar og allir litir regnbogans.

Ég sé flugvél og ég vil að hún taki mig með.

Þessi tími fer hratt eins og vatn í á.

Ég horfi í kringum mig, en mér líður ekki vel,

ég er ekki heima hjá mér.

Ekki hér, ekki á Íslandi. Í Póllandi er húsið mitt.

Tíminn fer svo hratt og enginn veit hvenær allt var búið.

Fuglarnir eru að fara, enginn veit hvenær þeir áttu að koma.

Eitthvað vantar mig, ég hélt að ég vissi hvað það er.

Það er fjölskyldan mín, í hjartanu mínu.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.