Handbolti

Guðmundur sáttur: Spiluðum mjög góða vörn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur og lærisveinar hans eru komnir í góða stöðu eftir sigurinn á Króatíu í kvöld.
Guðmundur og lærisveinar hans eru komnir í góða stöðu eftir sigurinn á Króatíu í kvöld. vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska handboltalandsliðsins, hrósaði sínum mönnum eftir sigurinn mikilvæga á Króatíu í forkeppni Ólympíuleikanna í kvöld.

„Við spiluðum mjög góða vörn og Niklas Landin varði mikilvæg skot í markinu,“ sagði Guðmundur eftir leikinn sem Danir unnu 28-24. Þeir eru með tvö stig í riðli 3, líkt og Norðmenn sem báru sigurorð af Barein fyrr í dag, 35-29.

„Við fengum einnig mörg mörk úr hraðaupphlaupum, sérstaklega í fyrri hálfleik, þar sem þau voru fimm eða sex. Það eru alltaf mikilvæg mörk í leikjum gegn líkamlega sterkum andstæðingum.“

Guðmundur viðurkennir að honum hafi ekki litist á blikuna þegar Króatar breyttu stöðunni úr 23-17 í 23-22 í seinni hálfleik.

„Þetta var erfiður kafli, þegar þeir náðu að minnka muninn í eitt mark. Þetta var ekki auðvelt en ég er mjög stoltur af því hvernig mínir menn höndluðu þær aðstæður,“ sagði Guðmundur sem er tilbúinn í leikinn gegn Noregi á morgun.

„Það verður áskorun fyrir okkur að koma okkur aftur niður á jörðina. Við getum glaðst í klukkutíma til viðbótar en svo þurfum við að einbeita okkur að Noregi. Það er hættulegt lið með mikið sjálfstraust,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×