Danska handboltalandsliðið fer vel af stað í forkeppni Ólympíuleikanna en í kvöld vann liðið fjögurra marka sigur, 28-24, á Króatíu.
Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar eru því með tvö stig í riðli 3, líkt og Norðmenn sem unnu 35-29 sigur á Barein fyrr í dag. Riðilinn er leikinn í Herning í Danmörku.
Eftir jafna byrjun á leiknum náðu Danir forystunni og létu hana ekki af hendi það sem eftir lifði leiks. Þeir leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 11-9, og á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 28-24.
Mikkel Hansen átti stórleik í liði Dana, skoraði átta mörk og gaf sjö stoðsendingar. Kasper Söndergaard kom næstur með fimm mörk. Manuel Strlek skoraði sjö mörk fyrir Króata.
Danir mæta Norðmönnum á morgun og ljúka svo leik gegn Barein á sunnudaginn.
Í riðli 1, sem er leikinn í Póllandi, eru heimamenn og Túnisar með tvö stig. Pólverjar unnu fimm marka sigur á Makedóníu, 25-20, á meðan Túnis bar sigurorð af Chile, 35-29.
Í riðli 2 í Malmö unnu Slóvenar nokkuð óvæntan sigur á Spánverjum, silfurliðinu frá EM í Póllandi, 24-21. Slóvenía, sem olli vonbrigðum á EM, er því með tvö stig í riðlinum, líkt og Svíþjóð sem vann auðveldan sigur á Íran, 34-19.
Riðill 1 - Gdansk, Póllandi
Túnis 35-29 Chile
Pólland 25-20 Makedónía
Riðill 2 - Malmö, Svíþjóð
Slóvenía 24-21 Spánn
Svíþjóð 34-19 Íran
Riðill 3 - Herning, Danmörku
Noregur 35-29 Barein
Danmörk 28-24 Króatía
Hansen með stórleik í sigri Dana | Óvæntur sigur Slóvena
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið



Baðst afsökunar á tæklingunni í Garðabænum
Íslenski boltinn



Liverpool tilkynnir um risasamning við Adidas
Enski boltinn



