Menning

Ljóðræn verk sem reyna á ímyndunaraflið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Verkin eru unnin úr alls konar dóti,“ segir Jón sem er þekktur fyrir klippimyndir sínar en fleiri hlutir koma sterkir inn.
"Verkin eru unnin úr alls konar dóti,“ segir Jón sem er þekktur fyrir klippimyndir sínar en fleiri hlutir koma sterkir inn. Myndir/Haraldur Ingi
„Yfirlitssýning? Ja, kannski í einhverjum skilningi,“ segir Akureyringurinn Jón Laxdal Halldórsson myndlistarmaður um sýninguna ...úr rústum og rusli tímans, sem hann opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardaginn klukkan 15. Þar má sjá myndir frá löngum ferli hans ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega í tilefni þessarar sýningar.

Spurður út í titillinn svarar Jón.

„Verkin eru unnin úr alls konar dóti, gömlum tímaritum og blöðum til dæmis, jafnvel Fréttablaðinu. Þetta eru klippimyndir, ég hef aðallega fengist við þær. Það er minn stíll.“

Hann segir verkin dálítið ljóðræn svo fólk verði að fara svolítið í gegnum sýninguna á eigin ímyndunarafli. Sú frétt kemur kannski ekki á óvart því ljóðlistin fangaði huga listamannsins á tímabili. Hann lærði heimspeki við Háskóla Íslands og gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1974 en kveðst lítið gera af því að yrkja nú orðið.

„Áherslurnar breyttust svolítið á þrítugsaldrinum, þá sneri ég mér að myndlistinni,“ segir hann.





Sum verkin eru unnin úr gömlum tímaritum og blöðum, jafnvel Fréttablaðinu, að sögn listamannsins.
Jón hélt sína fyrstu einkasýningu í Rauða húsinu á Akureyri árið 1982. Síðan hefur hann sýnt á fjölmörgum sýningum víðs vegar um heim og á verk á fjölda safna.

Nú leggur hann undir sig Mið- og Austursal Listasafnsins á Akureyri en í Vestursal opnar Samúel Jóhannsson sýninguna Samúel, hún er hluti af röð sem stendur til 13. mars og inniheldur fjórar tveggja vikna sýningar. Aðrir listamenn þar eru Jonna – Jónborg Sigurðardóttir, Baldvin Ringsted og Noemi Niederhauser.

Þar sem Jón býr í Freyjulundi, gömlu samkomuhúsi í Eyjafirðinum, ásamt listakonunni Aðalheiði Eysteinsdóttur er hann í lokin spurður um veður og færð. „Það er mikil ofankoma og búin að vera í allan morgun. Ég hef samt engar áhyggjur af að ég komist ekki heim. Það er hugsað vel um vegina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×