Erlent

Heimila hermönnum að nauðga konum í stað þess að greiða laun

Atli Ísleifsson skrifar
Borgarastríðið í Suður-Súdan braust út í desember 2013.
Borgarastríðið í Suður-Súdan braust út í desember 2013. Vísir/EPA
Vígamenn í Suður-Súdan fá leyfi hjá yfirvöldum til þess að nauðga konum í skiptum fyrir unnin störf samkvæmt nýrri úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðunni þar í landi.

Ástandinu í landinu er lýst sem einu því versta í heimi sé litið til mannréttinda.

Úttektarmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna segjast hafa upplýsingar um að vopnaðir hermenn sem berjist með her Suður-Súdan gerist brotlegir undir samkomulaginu „gerðu það sem þú getur, taktu það sem þú getur“. AFP greinir frá.

„Flestir ungir menn ræna einnig nautgripum, stela persónulegum eigum, nauðga og nema á brott konur og stúlkur og líta á það sem greiðslur,“ segir í úttektinni.

Þar er fjallað um hvernig þeir almennu borgarar sem styðji andstæðinga hersins, þeirra á meðal börn, séu brenndir lifandi, kafni lokaðir inni í gámum, séu hengdir í trjám og skornir í sundur.

Zeid Ra’ad Al Hussein, yfirmaður á sviði mannréttinda hjá SÞ, segir nauðgunum beitt sem vopni í stríðsátökum og til að ala á hræðslu hjá almenningi.

Eftir að Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki árið 2011 braust út borgarastyrjöld í landinu í lok árs 2013. Síðan hefur þjóðin fátæka verið klofin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×